Magnús S. Guðmundsson, einnig þekktur sem Maggi Peran, tók nýlega við starfi stöðvarstjóra hjá Íslandspósti á Selfossi. Magnús er fæddur og uppalinn í Breiðholtinu en varð harður Selfyssingur á örskammri stundu eftir að hann flutti þangað með fjölskyldu sinni fyrir tæpum fjórum árum síðan.

Fullt nafn: Magnús Sigurjón Guðmundsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 2. nóvember 1981 í Breiðholti í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Jennyju Hildi Jónsdóttur og eigum við tvö börn.
Menntun: Tómstunda- og félagsmálafræðingur frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Stöðvarstjóri hjá Íslandspósti á Selfossi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Allar bækurnar hans Arnaldar Indriðasonar eru í miklu uppáhaldi. Sem og bækurnar hennar Yrsu.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Game of Thrones og Sons of Anarchy.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Major League með Charlie Sheen í broddi fylkingar.
Te eða kaffi: Kaffi og mikið af því.
Uppáhalds árstími: Er eins og kálfarnir. Vorið!
Besta líkamsræktin: Stigavélin í World Class er í uppáhaldi þessa stundina en annars elska ég að ganga á fjöll.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Það eru fáir sem toppa mig í að elda unnar kjötvörur. En ætli ég sé ekki bestur í að gera lasagna.
Við hvað ertu hræddur: Ég er ofsahræddur við ketti, geitunga og mýs.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Uppúr klukkan 6.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fæ mér fílakaramellur og les góða bók.
Hvað finnst þér vanmetið: Unnar kjötvörur. Hvernig má það vera að einstaklingar séu að hallmæla þeim?
En ofmetið: Allt svona nýmóðins brauðmeti eins og Brauð og co og fleira.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Týnda kynslóðin með Bjartmari Guðlaugs.
Besta lyktin: Ég lenti í slysi í desember. Finn enga lykt né bragð eftir það. Sakna þess mikið að finna lyktina af súrmat og nýbökuðum kanilsnúðum.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Uhhhhh…. hvert eitt og einasta.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: „Hataðu knattspyrnulið Liverpool eins og pestina“.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Dalvík og Trier í Þýskalandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hæg bílaumferð og appið Sportabler.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Fékk einu sinni matareitrun korter í lestarferð sem tók 6 tíma. Átti þar miður notalega ferð inná salerni með ferðatösku í fanginu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Kennari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mér finnst Sigurður „Budda“ Sólmundsson gríðarlega fyndinn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Ég myndi vilja vera Tómas Þóroddsson eða Tom Krús því þá gæti ég smakkað allar kökurnar og borðað allan matinn á Krúsinni á hverjum degi án þess að skammast mín. Einnig væri ég í miklum metum hjá kvenpeningi Suðurlands.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Ég nota Twitter, Facebook og Instagram mest en hata Snapchat meira en allt.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég fylla bankabókina mína, fara til Bigga Ásgeirs og kaupa húsið hans, fá mér nýjar tennur, kaupa lið Atlanta Falcons í NFL deildinni og fara í hárígræðslu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég var einu sinni með þykkt, sítt hár. Blessuð sé minning þess.
Mesta afrek í lífinu: Eignaðist guðdómlega vel heppnuð börn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara til ársins 1999 og skella mér aftur á Skímó í Galtalæk. Nema í þetta skiptið myndi ég sleppa að reyna við dökkhærðu stelpuna sem fannst ég ógeðslega ljótur og feitur.
Lífsmottó: Njóttu stundarinnar.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að spritta mig, bjóða fólki í mat og halda tveggja metra fjarlægð.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinStjórnvöld hvött til að framkvæma á landsbyggðinni
Næsta greinTíu verkefni á Suðurlandi fengu styrk