Árný Jóna Sigurðardóttir, deildarstjóri í leikskólanum Örk á Hvolsvelli, notaði samkomubannið til þess að prjóna vettlinga handa öllum börnunum á deildinni sinni. „Ég elska að prjóna og átti ég fullt af lopa í alls konar litum. Ég bjó mér til smá verkefni á þessum skrítnu tímum og prjónaði 25 pör af vettlingum, eitt par fyrir hvert barn á deildinni. Þegar börnin fengu að koma í leikskólann aftur þann 4. maí beið þeirra pakki og gleðin var svo mikið að þau voru í vettlingunum inni og máttu ekki vera að því að leika sér í byrjun dags,“ segir Árný Jóna, sem er Sunnlendingur vikunnar að þessu sinni.

Fullt nafn: Árný Jóna Sigurðardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Fædd í Reykjavík 13. september 1978.
Fjölskylduhagir: Gift Sveinbirni Má Birgissyni, vélvirkja, og eigum við þrjú börn saman, Emelíu Sif 15 ára, Sigurð Kára 12 ára og Oddnýju Sif 10 ára.
Menntun: Útskrifaðist sem leikskólakennari árið 2002 frá Kennaraháskóla Íslands.
Atvinna: Vinn í leikskólanum Örk á Hvolsvelli, er deildarstjóri á Tónalandi með elstu börnin.
Besta bók sem þú hefur lesið: Les alltof lítið en síðustu bækur sem ég las eru m.a. bókin eftir Sölva Tryggvason, bókin um Björgvin Pál Gústafsson og bókin um Söru Björk Gunnarsdóttir og í augnablikinu eru þær í uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Missi helst ekki af Eldað með Evu Laufey en svo er Grey’s Anatomy líka í uppáhaldi og svo er ég mikið fyrir allskyns keppnisþætti m.a. Survivor og Biggest Looser.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Mamma Mia.
Te eða kaffi: Kaffi allan daginn og með rjóma útí.
Uppáhalds árstími: Sumarið, því þá get ég farið í útilegur í hjólhýsinu mínu.
Besta líkamsræktin: Ég reyni að stunda ræktina og sundlaugina reglulega en í samkomubanninu hef ég labbað og hjólað heima í stofu. Er svo að reyna að kaupa mér reiðhjól en þau virðast vera uppseld á landinu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Börnin segja eggjahræra og heimagerð pizza. En ætli ég segji ekki jólamaturinn sem er léttreyktur lambahamborgarahryggur frá SS og meðlæti.
Við hvað ertu hrædd: Er mjög lofthrædd og er illa við að vera uppá háu og þverhníptu fjalli.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Kl. 7:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Prjóna og svo finnst mér gott að liggja í sólbaði þegar viðrar til þess, ætlaði einmitt að skella mér í slökunarferð til Tenerife í júní en það bíður betri tíma.
Hvað finnst þér vanmetið: Verkleg kennsla í grunnskólum.
En ofmetið: Rækjur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Núna er það nýja lagið með Helga Björns. Það passar líka svona vel við á þessum tímum.
Besta lyktin: Nýslegið gras.
Bað eða sturta: Heitt freyðibað eða heiti potturinn.
Leiðinlegasta húsverkið: Brjóta saman föt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Komdu fram við náungann eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Finnst voða gott að vaka frameftir en get ekki lengur sofið út, spurning hvort það sé aldurinn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þórsmörk allan ársins hring og Keukenhof í Hollandi í apríl þegar allt er í blóma.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óstundvísi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ætli það hafi ekki verið í lok maí í fyrra þegar ég var að prófa howerboardið hans Sigurðar Kára og datt af því afturfyrir mig og úlnliðsbrotnaði það illa að ég þurfti að fara í aðgerð og var í gipsi allt sumarið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ætlaði mér alltaf að verða fóstra. Það heiti breyttist svo í leikskólakennari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Edda Björgvins er alltaf fyndin.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Væri til í að vera Lína langsokkur, hún er svo töff, sterk og skemmtileg.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég gera foreldrum kleift að geta unnið minna úti frá börnunum sínum. Þetta er tími sem kemur aldrei aftur.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég kann að skipta um olíu á bíl, pabbi minn heitinn kenndi mér það þegar ég keypti minn fyrsta bíl. Reyndar sér eiginmaðurinn um það í dag.
Mesta afrek í lífinu: Börnin mín þrjú. Vonandi hef ég staðið mig vel það sem af er uppeldinu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Forvitnin rekur mig aftur í tímann til ömmu minnar og afa í Skál á Síðu og sjá hvernig lífið þeirra var þar sem þau bjuggu í fjósbaðstofu í gamla daga. Væri gaman að vera þar í kringum 1950 sirka.
Lífsmottó: Tökum Íslendinginn á þetta og segjum „þetta reddast“.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ætli ég reyni ekki að hjálpa til við að smíða pallinn okkar, en við erum að stækka hann.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinMjölnir bauð lægst í breikkun ofan Borgar
Næsta greinHamar semur við tvo erlenda leikmenn