Brynjólfur Þorsteinsson, skáld frá Hvolsvelli, er handhafi Ljóðstafs Jóns úr Vör en verðlaunin voru veitt í átjánda sinn á afmælisdegi skáldsins þann 21. janúar. Alls bárust 302 ljóð í keppnina en verðlaunin hlaut Brynjólfur fyrir ljóðið Gormánuður. Þar „fléttar hið unga skáld listilega saman andstæðum þar sem ljós og sorti, fortíð og nútíð mynda meistaralega smíðaða heild sveipaða myndríkri dulúð,“ svo vitnað sé í dómnefndina. 

Fullt nafn: Brynjólfur Þorsteinsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 30. júlí 1990, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég á kærustu sem heitir Anna Hafþórsdóttir .
Menntun: Ég er með meistaragráðu í ritlist.
Atvinna: Ég er bóksali í Bókabúð Máls og menningar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Meistarinn og Margaríta eftir Búlgakov hafði mikil áhrif á mig sem unglingur. Kannski Dauðar sálir eftir Gogol.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Seinfeld
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég horfi stundum á Blade Runner þegar ég fer að sofa.
Te eða kaffi: Kaffi
Uppáhalds árstími: Haustið
Besta líkamsræktin: Það er að hlaupa á eftir og sparka í bolta.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er mjög góður í að elda kássur sem láta manni líða illa í maganum í marga daga á eftir.
Við hvað ertu hræddur: Dauðann, hnífa og gler, hatur og tilhæfulaust ofbeldi, að vera niðurlægður á almannafæri, að fólk átti sig á því hvað ég er mikill bjáni, að fá símtöl, ég er hræddur við öll símtöl, sendið mér bara tölvupóst. Ég er líka mjög lofthræddur. Finnst eiginlega best að vera sitjandi. Svo er frekar óþægileg stemning yfir vatni, ég vil helst ekki vera ofan í einhverju sem hægt er að drukkna í.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það fer svolítið eftir því hvenær ég þarf að fara á fætur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á sjónvarpið eða les bók.
Hvað finnst þér vanmetið: Að lesa bók.
En ofmetið: Að horfa á sjónvarpið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Goodbye Horses með Q Lazarus.
Besta lyktin: Af mat þegar maður er svangur eða nýslegnu grasi. Svo er til fullt af allskonar kremum sem lykta vel, þetta vita ekki allir.
Bað eða sturta: Sturta. Maður drukknar ekki í sturtum.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst mjög leiðinlegt að skúra.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að slaka aðeins á. Mér er reglulega gefið þetta ráð, þegar ég er eitthvað hræddur, og alltaf hefur viðkomandi rétt fyrir sér, það er betra að slaka aðeins á.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ég vil helst ekki gera upp á milli staða. Þeir eru hörundsárir.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk suðar í mér. Enska er líka pirrandi. Og þegar ég fæ ekki að hafa það náðugt, það er mjög ósanngjarnt.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ef ég myndi segja frá því á prenti yrði líklegast að hringja í lögregluna.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði að verða atvinnumaður í fótbolta. Ég er ennþá opinn fyrir þeim starfsferli, ef þið vitið um eitthvað fyrir náunga sem er ekkert sérstaklega góður í fótbolta.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Anna Hafþórsdóttir. Það er væmið að segja það en ég stend með því.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag: Ég væri til í að prófa að vera Dostojevskí. Mig hefur alltaf langað að vita hvernig það er að fá flogakast í Rússlandi á nítjándu öld. Eða kannski api, ég hugsa að það sé svolítið fyndið að vera api.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Twitter.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi gefa mannfólki rófu aftur. Við vorum einu sinni með rófu, það er kominn tími á þær aftur.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég held að fæstir viti eitthvað um mig yfirhöfuð. En svo er ég með flatfót, það er líklegast ekki á vitorði margra.
Mesta afrek í lífinu: Ætli það sé ekki að sigra Ljóðstaf Jóns úr Vör.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tíma, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara fram. Það er ekki hægt að gúgla það hvað gerist í framtíðinni.
Lífsmottó: Að hafa það svolítið náðugt.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég hugsa að ég reyni að hafa það svolítið náðugt.

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs, afhendir Brynjólfi Ljóðstafinn í Salnum í Kópavogi á mánudagskvöld. Ljósmynd/Anton Brink

Gormánuður

allir hrafnar eru gat

líka þessi sem krunkar
uppi á ljósastaur

eins og brot
í himingrárri tönn

sjóndeildarhringurinn nakin tré
skorpin vör

pírðu augun
einblíndu á fjaðursortann

það glittir í úf

allir hrafnar eru gat
og innvolsið uppdráttur að morgundegi

líka í þessum sem krunkar
uppi á ljósastaur

lestu hann
með vasahníf og opinn munn

hjartað springur
eins og ber undir tönn

bragðið er svart

eftir Brynjólf Þorsteinsson handhafa Ljóðstafsins 2019

Fyrri greinUnnið að friðlýsingu búsetulandslags í Þjórsárdal
Næsta greinAukin flokkun úrgangs hefur algjöran forgang