Selfyssingurinn Þórunn Anna Guðbjartsdóttir er dúx Fjölbrautaskóla Suðurlands á haustönn 2020. Brautskráningarathöfnin í desember var sérstök, en henni var skipt í tvo hluta og engir gestir voru viðstaddir. Við brautskráninguna hlaut Þórunn Anna viðurkenningu frá Hollvarðasamtökum FSu og einnig viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur í stærðfræði, íslensku og spænsku. Hún stefnir á nám í læknisfræði og undirbýr sig nú fyrir inntökupróf sem fram fer í júní.

Fullt nafn: Þórunn Anna Guðbjartsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 11. desember 2001 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Foreldrar mínir heita Guðbjartur Ólason og Margrét Sverrisdóttir. Ég á einn bróður sem heitir Óli Þorbjörn.
Menntun: Stúdent á náttúrufræðilínu frá Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Atvinna: Er að einblína á nám eins og er.
Besta bók sem þú hefur lesið: Hvítidauði eftir Ragnar Jónasson.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends og The Big Bang Theory.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég horfi vanalega ekki á myndir oftar en einu sinni. Ég hef ekki þolinmæðina í það vegna þess að ég veit þá hvernig allt fer í myndinni.
Te eða kaffi: Hvorugt.
Uppáhalds árstími: Get ekki valið á milli sumars og vetrar.
Besta líkamsræktin: Aerial Yoga í Yoga Sálum og tímar hjá Guðrúnu Maríu í WorldClass.
Hvaða rétt ertu best að elda: Verð að viðurkenna að ég elda mjög sjaldan því pabbi er svo góður kokkur.
Við hvað ertu hrædd: Skógarmítil.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer vanalega snemma á fætur, um hálf sjö, til þess að hafa nægan tíma til þess að hafa mig til á morgnana og nýta daginn vel. Um helgar leyfi ég mér oftast að sofa út.
Hvað gerir þú til að slaka á: Besta leiðin til þess að slaka á er að fara í heitan pott.
Hvað finnst þér vanmetið: Tíminn. Við höldum oftast að við höfum svo mikinn tíma í lífinu en raunveruleikinn er sá að hann er mjög fljótur að hlaupa frá okkur.
En ofmetið: Veraldlegar eigur. Hlutir veita fólki ekki endilega hamingju. Mér finnst mikilvægara að fjárfesta í minningum og ferðalögum.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það er mjög misjafnt. Ég hef gaman af því að hlusta á gamla smelli frá áttunda og níunda áratugnum þegar ég er komin með leið á nýju popplögunum sem í boði eru.
Besta lyktin: Vanilla.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra er enn leiðinlegra en að þurrka af.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ráð frá mömmu minni. Að vera ekki of dómhörð og mynda mér skoðanir á hlutum sem ég hef ekki nægilegt vit á.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru mjög margir en eftirminnilegasti staðurinn er New York.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Dómharka, vanþakklæti og trúnaðarbrot.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var tólf ára þá fór ég í vatnsrennibrautagarð á Spáni. Í einni rennibrautinni átti að sitja í kleinuhring. Ég var svo hrædd að ég settist eins neðarlega og ég gat sem varð til þess að bikinisundskýlan nuddaðist við rennibrautina og á hana kom nokkuð stórt gat á rassinn. Sem betur fer var mamma með aukaskýlu af bróður mínum.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Læknir.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Klárlega pabbi, ég get alltaf hlegið að honum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi vilja vera Jeff Bezos og gefa stóran hluta af peningum hans til fólks sem þarf nauðsynlega á þeim að halda. Enginn ætti að vera svona ríkur.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Er inni á flestum helstu samfélagsmiðlum en reyni að vera á þeim sem minnst.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi útrýma ofbeldi og hungri.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á mjög erfitt með að rata og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
Mesta afrek í lífinu: Ég á það eftir.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara fram í tímann um svona 200 ár til þess að sjá tækniþróunina.
Lífsmottó: Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Njóta lífsins.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFjöruáhrif í Gallerí Fold
Næsta greinStaðan á Suðurlandi ekki betri síðan í ágúst