Agnes Fríða Þórðardóttir frá Tyrfingsstöðum í Ásahreppi var á dögunum kosin stallari í nýrri stjórn Mímis, nemendafélags Menntaskólans að Laugarvatni. Agnes Fríða stendur heldur betur í stórræðum þessa dagana því leikhópurinn í ML frumsýnir í kvöld leikverkið Sódóma Reykjavík, þar sem Agnes Fríða er annar leikstjóra og höfundur leikgerðar, ásamt Ragnari Leó Sigurgeirssyni. Agnes Fríða er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Agnes Fríða Þórðardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist þann 24. september árið 2005 á Selfossi en hef búið í Ásahreppi í 12 ár.
Fjölskylduhagir: Ég bý með foreldrum mínum á sveitabænum Tyrfingsstöðum og stóra systir mín og fjölskyldan hennar búa í húsi við hliðina á okkur. Svo á ég tvo eldri bræður, annar býr á Selfossi og hinn fyrir norðan.
Menntun: Ég var alla grunnskólagöngu mína í Laugalandsskóla í Holtum en er núna á öðru ári á náttúruvísindabraut í Menntaskólanum að Laugarvatni.
Atvinna: Hef unnið á hótelinu Midgard á Hvolsvelli í tæplega tvö ár.
Besta bók sem þú hefur lesið: Er ekki mikill lestrarhestur, en ég las Hungurleikana fyrir nokkrum árum, hún var fín.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends er náttúrulega klassík 😉
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég fæ aldrei leið á Moulin Rogue en svo get ég líka horft á allar Að temja drekann sinn myndirnar aftur og aftur.
Te eða kaffi: Ég drekk því miður hvorugt…
Uppáhalds árstími: Sumarið klikkar ekki en mér finnst haustið alltaf vera fallegasti árstíminn.
Besta líkamsræktin: DANSA!!!
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég geri rugl góða eðlu.
Við hvað ertu hrædd: Ég er svo myrkfælin að það er ekki fyndið.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ef ég þarf að gera eitthvað á daginn, eins og að fara í skólann eða vinna reyni ég að vakna klukkutíma fyrir. En ef það er ekkert sem stendur til á dagskránni þann dag þá sef ég út, hversu lengi fer eftir því hvenær ég fer að sofa.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á tónlist og dreg andann djúpt.
Hvað finnst þér vanmetið: Að horfa á bíómyndir í staðinn fyrir þætti.
En ofmetið: Að horfa á þætti í staðinn fyrir bíómyndir.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Endalaust með Koppafeiti.
Besta lyktin: Lyktin af sjampóinu mínu.
Bað eða sturta: Sturta allan daginn! Get ekki verið lengur en 10 mínútur í baði.
Leiðinlegasta húsverkið: Þrífa fiskabúrið heima hjá mér.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Mamma mín sagði mér einhvern tímann að ef ég er hrædd við að taka stökkið, þá á ég að stökkva.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, ég vil helst sofa allan morguninn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Eyjólfsstaðir á Austurlandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Ég er með rosalega mikinn athyglisbrest og þegar einhver byrjar að tala á meðan ég er að einbeita mér þá steingleymi ég því sem ég var að hugsa um.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég gubbaði uppi á sviði á leiksýningu í 1. bekk í grunnskóla.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði alltaf að vera bakari þegar ég var lítil en núna er ég farin að hallast meira að leiklistinni og langar að gera meira svoleiðis í framtíðinni.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég þekki mjög marga fyndna einstaklinga en mér finnst mamma mín vera mjög fyndin, ég fæ húmorinn frá henni.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að prófa að vera Jói vinur minn í einn dag, langar svo að vita hvað hann er að hugsa stundum.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat, eins og flestir á mínum aldri.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi gefa öllum að borða og stoppa stríðið í Úkraínu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á rosalega erfitt með að kynna eitthvað fyrir framan fólk, en ég er samt að verða betri í því.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur til ársins 1973 og fara á Led Zeppelin tónleikana í Madison Square Garden.
Lífsmottó: Þú átt bara eitt líf, lifðu því.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Sýna leikritið okkar Sódóma Reykjavík!!!


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÖruggur sigur á heimavelli
Næsta greinSamið við Selásbyggingar um skrifstofubyggingu UTU