SIGURHÆÐIR– þjónusta við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi – tekur
til starfa þann 20. mars næstkomandi. Það er Soroptimistaklúbbur Suðurlands sem er frumkvöðull að verkefninu en verkefnastjórinn er Hildur Jónsdóttir á Selfossi. Markmið Soroptimistasystra er að vinna að jafnrétti kynja, framförum og friði með sérstakri áherslu á baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi og fyrir valdeflingu kvenna og sjálfbærni í umhverfismálum.

Fullt nafn: Hildur Jónsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 2. desember 1955, Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Gift Hirti O. Aðalsteinssyni dómstjóra við Héraðsdóm Suðurlands og eigum við einn son Jörund. Fyrir átti ég Rögnu Bjarnadóttur og Erling Atla Pálmarsson og Hjörtur átti Guðrúnu og Hjördísi. Svo á ég tvær dásemdar ömmustelpur, þær Diljá og Agnesi og þrjú frábær stjúpömmubörn, Eyþór Daða, Atla Fannar og Hafdísi Önnu.
Menntun: BA í frétta- og blaðamennsku og nám í stjórnsýslufræðum.
Atvinna: Ég er hætt að vinna en hef mest allan feril minn sinnt jafnréttismálum fyrir opinbera aðila, Reykjavíkurborg, félagsmálaráðuneyti og forsætisráðuneyti.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úps, þessi er erfið. Ætli ég segi ekki Bróðir minn Ljónshjarta. Það er skandall að Astrid Lindgren skyldi ekki hafa fengið nóbelsverðlaunin.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Fréttir.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Gestaboð Babettu.
Te eða kaffi: Kaffi – og nóg af því.
Uppáhalds árstími: Haustið. Litirnir og stillurnar heilla mig alltaf.
Besta líkamsræktin: Vatnsleikfimi.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Coq au vin, bregst aldrei.
Við hvað ertu hrædd: Spíttaða ökumenn.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er upp og ofan.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á músík.
Hvað finnst þér vanmetið: Letin.
En ofmetið: Geta íslenska landsliðsins í handbolta.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: It’s raining men með The Weather Girls.
Besta lyktin: Lyktin af ungabarni.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Ryksugun.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Gerðu það aldrei nema þig sjálfa langi til (frá móður til unglings).
Nátthrafn eða morgunhani: Allt eftir aðstæðum.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Lónsöræfi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tvöföld skilaboð.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Að verða kolólöglegur strandaglópur í Austur-Berlín um miðja nótt og yfirheyrð í kjölfarið.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Allt mögulegt allskonar.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ragnar Tjörvi Baldursson.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég myndi gjarnan vilja vera Ruth Bader Ginsburg hæstaréttardómari í Bandaríkjunum og átta mig á því hvað gerði hana að þeirri djúpvitru baráttukonu fyrir réttindum kvenna sem hún var.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég steypa öllum harðstjórum, gera lýðræðið virkara og auka jöfnuð í samfélaginu.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á það til að taka til á almenningsklósettum.
Mesta afrek í lífinu: Að fæða börnin mín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Til landnámsins til að sjá Ísland viði klætt frá fjalli til fjöru.
Lífsmottó: It´s not the critic who counts, (Theodore Roosewelt).
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Vera á fagnaðarfundi – við opnun SIGURHÆÐA, nýs úrræðis fyrir þolendur kynbundins ofbeldis hér á Suðurlandi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÁhugaverðar viðureignir í bikarnum
Næsta greinSuðurstrandarvegi lokað í kvöld