Fyrir skemmstu hlaut nýjasta stuttmynd Brúsa Ólasonar frá Litlu-Sandvík, Dalía, verðlaun á kvikmyndahátíðinni Euregion í Hollandi. Dalía er þriðja myndin sem Brúsi bæði leikstýrir og skrifar handritið að, annað hvort einn með með öðrum. Áður hefur hann gert myndirnar Sjáumst og Viktoría, sem hlutu einnig verðskuldaða athygli. Þrátt fyrir heimsfaraldur hefur Brúsi í nægu að snúast og segir allskonar verkefni í pípunum og nóg sé að gerast bak við tjöldin.

Fullt nafn: Ólafur Ingvi Ólason en geng jafnan undir nafninu Brúsi Ólason.
Fæðingardagur, ár og staður: 2. febrúar, 1990 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Einhleypur og ráðvilltur.
Menntun: Meistaragráða í kvikmyndaleikstjórn við Columbia háskóla í New York og bakkalárgráða í kvikmyndafræði með ritlist sem aukagrein frá Háskóla Íslands í Reykjavík.
Atvinna: Kvikmyndagerð í allri sinni dýrð og djöfulgangi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Úff, ég hef verið að velta þessu fyrir mér nýlega og á mjög erfitt með að negla niður einhverja eina. En nýlega las ég Tímaþjófinn eftir Steinunni Sigurðardóttur og henni tókst að rista djúpt.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Þetta er annað sem getur breyst við lítið tilefni en ég alveg elska Succession þessa dagana. Skrifa nánast eingöngu við tónlistina úr þeim þáttum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þær eru náttúrulega mjög margar en sú sem kemur fyrst í huga er Clerks eftir Kevin Smith, myndin sem fékk mig til að trúa á drauminn um að gera þetta.
Te eða kaffi: Ég byrjaði að drekka kaffi þegar ég varð þrítugur, semsagt í fyrra, og ég elska það.
Uppáhalds árstími: Íslenskt sumar.
Besta líkamsræktin: Að moka skít heima í sveit með podcast í eyrunum.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er algjör hamfarakokkur svo ég hendi bara einhverju á pönnu og steiki og sýð kannski pasta eða núðlur með, svo bara slurk af sósu og við erum að dansa.
Við hvað ertu hræddur: Spicy mat. En ég er að vinna í því.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það fer algjörlega eftir verkefni hvers dags. Ekki mjög reglubundið svefnmynstur hjá mér því miður.
Hvað gerir þú til að slaka á: Horfi á heimskuleg Youtube myndbönd. Oft topp listar. Undanfarið mikið búinn að vera að horfa á myndbönd um safety razor rakvélar.
Hvað finnst þér vanmetið: Að reyna að skilja sjónarhorn einhvers annars.
En ofmetið: Peningar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Kids með MGMT, búið að vera í uppáhaldi síðan í FSu. En hlakka mikið til að fá að dansa við Blinding Lights á skemmtistað þegar það má fara að dansa aftur.
Besta lyktin: Nýslegið tún.
Bað eða sturta: Hef bara einusinni búið í húsnæði þar sem ég hafði aðgang að baði og fannst alltaf skrítið að fara í bað, en mér skilst að ég sé bara að gera þetta vitlaust.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra því mér finnst ég alltaf svo lélegur í því.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það er erfitt þetta líf fyrstu hundrað árin.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Gaman að ferðast til morgnana en myndi ekki vilja búa þar.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er náttúrulega af nógu að taka hérna heima á klakanum en það vita það allir svo ég ætla að segja vatnið sem ég gekk að í fjallgöngu í Colorado.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Stress, allir slakir bara takk.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég ruglaðist á Mónakó og Marokkó í undan úrslitum Gettu betur.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Leikstjóri, kennari eða sálfræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Stefán Hannesson, náttúrlega fyndnasti maður sem ég þekki.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það væri náttúrulega ótrúlegt að fá að upplifa dag frá sjónarhorni einhverrar annarar manneskju og líklega væri best að skilja manneskju sem er eins langt frá manni og hægt er í aðstæðum og upplifun á heiminum sem væri þá líklega einhver sem mér gæti aldrei dottið í hug í raun og veru. Að því sögðu þá sennilega Jeff Bezos og skrifa undir einhverja bindandi pappíra um að gefa alla peningana mína/hans.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Kíki reglulega á Twitter og Instagram. Pósta mest á Insta, er @skeggbrusi þar.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi snúa við áhrifum koltvísýrings á andrúmsloftið eða eitthvað í þá áttina. Reyna að redda þessari loftslagsvá með mína takmörkuðu vitneskju um hvernig hún virkar.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég á alltaf bleikan tannbursta.
Mesta afrek í lífinu: Ég hugsa að ég eigi það enn inni.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi sennilega bara fara í smá rannsóknar leiðangur til seinna stríðs hérna á íslandi. Er með hugmynd sem mig langar að skrifa um það tímabil.
Lífsmottó: Eina manneskjan sem þú getur raunverulega haft áhrif á ert þú sjálfur og það er bara alls ekki auðvelt heldur.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Vona að það komi ekki önnur bylgja af smitum og líklega vinna eitthvað í tölvunni eins og flesta aðra daga.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÁrborg á flugi í fyrsta leik
Næsta greinMetatron bauð lægst í innanhússfrágang