Dr. Lilja Jóhannesdóttir frá Sléttabóli á Skeiðum starfar hjá Náttúrustofu Suðausturlands í Hornafirði þar sem hún vinnur við vistfræðirannsóknir með áherslu á fuglalíf. Í lok síðasta árs var birt grein í alþjóðlega vísindaritinu Agriculture, Ecosystems & Environment sem Lilja er höfundur að ásamt starfsfélögum sínum á Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi. Greinin á rætur í doktorsverkefni Lilju sem hún lauk árið 2017 en doktorsverkefnið ber heitið Tengsl landnotkunar og verndar farfugla á láglendi Íslands.

Fullt nafn: Lilja Jóhannesdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 16. apríl 1981 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Fékk í vöggugjöf risastóra og frábæra fjölskyldu en hef ekki fundið neinn verðugan til að búa til mína eigin með.
Menntun: Stúdent af félags- og náttúrufræðibraut frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, BS og MS gráða í náttúru- og umhverfisfræðum frá Landbúnaðarháskóla Íslands og doktorspróf í líffræði frá Háskóla Íslands.
Atvinna: Vinn við vistfræðirannsóknir með áherslu á fuglalíf. Var lengi vel við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurlandi en færði mig um set í sumar og vinn nú hjá Náttúrustofu Suðausturlands á Höfn í Hornafirði.
Besta bók sem þú hefur lesið: Fyrsta bókin sem kom upp í hugann var Næturgalinn eftir Hannah Wilson en ég öskurgrenjaði yfir henni nýlega en hún er nú samt tæplega besta bókin sem ég hef lesið. Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur er náttúrulega yndisleg bók. En sú bók sem ég hugsa oftast til er Jónatan Livingston Mávur eftir Richard Bach. Ég las hana tvisvar í röð og mér verður oft hugsað til Jónatans, mæli eindregið með henni (takk Ingunn).
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Horfi almennt mjög lítið á sjónvarp en neyðist til að viðurkenna að sá sem ég horfi samviskusamast á er Made in Chelsea (afar sakbitin sæla). Það er almenn skoðun fólks að ég sé með einkar lélegan smekk á sjónvarpsefni en sem dæmi um það má nefna að brotthvarf Guiding Light af sjónvarpsskjánum olli mér talsverðu hugarangri.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þær bíómyndir sem ég hef horft oftast á eru væntanlega Clueless og Bridget Jones´s Diary. Þetta gerðist þó á fyrri hluta ævi minnar og ég er ekki viss um að þær passi pólitískri rétthugsun minni í dag. Nú til dags hef ég hef sjaldan eirð í mér til að horfa á heila bíómynd.
Te eða kaffi: Kaffi en þegar ég bjó í Bretlandi lærði ég að meta te mun meira en áður, enda gæti tedýrkun breta flokkast sem nokkurs konar költ. Það hafðist þó ekki að temja mér tedrykkju að staðaldri hér heima.
Uppáhalds árstími: Þetta er örugglega eins og ef einhver biður þig að gera upp á milli barnanna sinna. Þau hafa nú öll eitthvað með sér. Heilt yfir býður sumarið upp á mestu lífsgæðin en það fylgja töfrar hverri árstíð. Lífið sem færist yfir hægt og bítandi á vorin, kristaltærar hauststillur með sinni litadýrð og svo öll ævintýrin sem veturinn bíður upp á.
Besta líkamsræktin: Það er að brölta upp á hæsta tindinn. Einnig er geggjuð æfing að fara á brimbretti, mjög mikil líkamleg áskorun en á sama tíma ertu algerlega í núinu því það eina sem þú hugsar um er að ná næstu öldu. Væri til í að stunda það en helst við notalegri aðstæður en á Íslandi. Gönguskíði og snjóbretti er líka frábær líkamsrækt. Líklega finnst mér öll hreyfing sem fer fram út í náttúrunni geggjuð. Annars mæli ég alveg með tímunum í Sporthöllinni á Höfn, þær eru algerar dúllur sem sjá um þá.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég ákvað að minnka kjötneyslu mína fyrir nokkru og gerðist því heimalöguð grænmetisæta, þ.e. ég kaupi ekki kjötvörur til að elda heima við. Eftir að það gerðist fyrir sirka fjórum mánuðum hef ég nánast borðað sama réttinn í öll mál, tortillur með linsubaunum og grænmeti. Svo líklega er ég best í því. En ég er ágætis kokkur og er mjög góð í að elda úr því sem ég finn ísskápnum enda er matarsóun eitur í beinum mér. Það sem ég get svo ómögulega étið fær krummi.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd við: að missa einhvern nákominn, höfnun, ísbirni, geltandi hunda, allt sem er nýtt, að vera skömmuð, ábyrgð, tófur (þar til mér var sagt þær væru jafnstórir og kettir), að festast í aðþrengdum rýmum, aðgerðaleysi í umhverfismálum og að raddir vorsins þagni.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 20 blundum eftir að klukkan hringir.
Hvað gerir þú til að slaka á: Langar að ljúga en líklega er algengast að ég skoði samfélagsmiðla.
Hvað finnst þér vanmetið: Náttúran.
En ofmetið: Hagvöxtur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: I need a hero með Bonnie Tyler og Girls Just Want to Have Fun með Cyndi Lauper.
Besta lyktin: Útilykt í þvotti, lykt af nýslegnu grasi og lyktin af norðanáttinni þegar hún kemur ofan af Vatnajökli (hún er raunveruleg).
Bað eða sturta: Þetta er sitthvor hluturinn, sturta er nauðsyn en bað er munaður.
Leiðinlegasta húsverkið: Þau eru öll bara svona svipað óspennandi, mig hefur dreymt um au-pair síðan ég var fimm ára.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Lífið er ekki eins alvarlegt og hugurinn þinn vill láta vera.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég hef aldrei samsamað mig sérstaklega þessari skilgreiningu en þar sem mér leiðist að fara í háttinn og á fætur þá kannski frekar nátthrafn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mjög margir sem koma upp í hugann en þeir eiga það allir sameiginlegt að vera á Íslandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Allt sem gerist þegar ég er svöng eða í hormónaójafnvægi. Annars er það nokkuð hefðbundið: óheiðarleiki, bíða eftir óstundvísu fólki og beturvitar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Mig grunar að nokkrir vinir mínir hugsi „ég get nú nefnt betra en þetta“ en þetta var alla vega nokkuð hræðilegt. Einu sinni var ég viðstödd útskrift hjá vinkonu minni úr FSu og farið var að líða að lokum athafnar. Ég var í óttalegu basli með rennilásinn á pilsinu sem ég valdi fyrir daginn og ákvað ég að fara á klósettið og reyna að bjarga því sem bjargað yrði áður en allir stæðu upp og það yrði örtröð af fólki. Samkvæmt hefð þá syngur kórinn í lokin og arka þá meðlimir inn salinn, með kórstjórann í broddi fylkingar, upp á svið. Þetta vissi ég en hélt ég hefði tíma til að skjótast þrátt fyrir að sitja mjög framarlega í salnum. Hófst þá för mín og náði ég að smeygja mér út sætaröðina mína þar til alveg í bláendann þar sem einhverjar krakkaótuktir sátu á gólfinu og flæktust fyrir mér. Ég fann hvernig rennilásinn var alveg hættur að þjóna tilgangi sínum og pilsið var farið að síga niður um mig, samtímis heyri ég Sigga skólameistara bjóða kórinn velkominn á svið. Nú er að duga eða drepast, ég gríp um pilsið með annarri og reyni að stugga krakkahrúgunni frá með hinni. Það var erfiðara og tímafrekara en ég reiknaði með og endaði með því að ég flækti fótinn í síðasta krakkann, missti jafnvægið og datt í fangið á Jóni Inga kórstjóra með pilsið á hælunum fyrir framan smekkfullan sal af fólki.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Flugfreyja.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég á svo marga sjúklega fyndna vini að ég get ómögulega gert upp á milli þeirra.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Kannski mjög sjálfhverft en ég vildi eiginlega helst vera einhver sem umgengst mig mjög mikið þann daginn og sjá mig í ljósi annarra.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég skipa öllum að hætta að neyta svona mikils varnings, það yrði alveg bannað að vera andstyggilegur og allir myndu virða náttúruna.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Þurfti að spyrja vin að þessu. Gef Guggu (ritskoðað) orðið: Þú ert nú agalega opin persóna en ég myndi skjóta á: austurlands upprunann (alin upp í Hornafirði), þrælfínan fótboltaferil, fínn sambýlingur, langt á undan þínum samtíma í tízku (túristapungur), kannt að elda drasl úr undarlegasta hráefni sem finnst í ísskápum, ógeðslega fyndin talhólfs skilaboðakona. Þú ert undir 160! Engin trúir að kona með svo stóran persónuleika sem samt svo lágvaxin. Svo ertu nú viðkvæmt lítið blóm þó þú myndir aldrei viðurkenna það. Þar höfum við það.
Mesta afrek í lífinu: Að mega kalla mig Doktor Lilju!
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi bara ekki fara neitt því lífið er núna.
Lífsmottó: Að hámarka hamingjuna hverja stund.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Anna Sigga og Eyja ætla að heimsækja mig og við ætlum á Nesjablót. Kristín Vala ætlar líka að koma.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Krossum fingur og vonum að ekkert klikki“
Næsta greinSundlaugum lokað vegna kulda