Gísella Hannesdóttir frá Arnkötlustöðum í Holtum var dúx nýstúdenta við Menntaskólann að Laugarvatni, þegar 45 nemendur brautskráðust á dögunum. Gísella, sem er stúdent af félags- og hugvísindabraut, var með einkunnina 9,79, sem mun vera næst hæsta einkunn á stúdentsprófi í sögu skólans. Hún var einnig ein þriggja nemenda sem hlutu styrk úr styrktarsjóði Kristins Kristmundssonar og Rannveigar Pálsdóttur.

Fullt nafn: Gísella (Guðný Salvör) Hannesdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 1. ágúst árið 2003 á Landspítalanum í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Foreldrar mínir eru þau Arndís Fannberg og Hannes Birgir Hannesson og svo á ég eldri bróður sem heitir Hannes Árni og yngri systur, hana Huldu Guðbjörgu.
Menntun: Stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni og svo hef ég líka lengi lært píanóleik og söng við Tónlistarskóla Rangæinga.
Atvinna: Ég vinn í eldhúsinu á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Lundi en þess á milli er ég að hjálpa til í ferðaþjónustu í sveitinni.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég elska máva eftir Þorgrím Þráinsson.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Norsku þættirnir SKAM hafa lengi verið í uppáhaldi.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Little Women (sú sem kom út árið 2019). Það er eiginlega vandræðalegt hvað ég hef horft á hana oft.
Te eða kaffi: Kaffi með mjólk án kaffis.
Uppáhalds árstími: Mér finnst allar árstíðirnar hafa sinn sjarma svo hver árstíð fyrir sig er í uppáhaldi á meðan hún stendur yfir. Sumarið er því í uppáhaldi núna fram á haust.
Besta líkamsræktin: Að dansa eins og vitleysingur úti á túni þegar enginn sér til.
Hvaða rétt ertu best í að elda: Ég er sérfræðingur í að elda grjónagraut!
Við hvað ertu hrædd: Mistök.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Fyrsta vekjaraklukkan hringir alltaf á slaginu 07:00 en ég sef svo fast að ég verð yfirleitt ekki vör við það fyrr en um 07:15.
Hvað gerir þú til að slaka á: Spila á píanóið eða kúri uppí rúmi og horfi á góða mynd.
Hvað finnst þér vanmetið: Það að hlusta á þögnina.
En ofmetið: Kartöflusalat.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Don’t Stop Me Now með Queen! Ég er nokkuð viss um að það sé ómögulegt að hlusta á það án þess að byrja að dilla sér með.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi.
Bað eða sturta: Örstutt sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að tæma síuna á þurrkaranum, ég get hugsað mér fátt leiðinlegra!
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Það að hugarfar skiptir öllu máli. Það er hægt að gera nánast hvað sem er skemmtilegt með rétta hugarfarinu, meira að segja það að tæma síuna á þurrkaranum!
Nátthrafn eða morgunhani: Ætli ég sé ekki blanda af báðu, ég vaki oft langt fram á nótt en vil samt helst vakna snemma. Ég fæ því sjaldnast nægan svefn en það er allt í lagi, ég get sofið þegar ég verð gömul.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mjóifjörður í Ísafjarðardjúpi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk sker skakkar kökusneiðar. Þess má geta að bróðir minn sérhæfir sig í skökkum kökuskurði.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Á útskriftinni minni frá ML hafði ég miklar áhyggjur af því að ég myndi stíga á pilsfaldinn á upphlutnum og detta fyrir framan alla. Það gerðist reyndar ekki en þegar ég var uppi á sviði til að taka á móti stúdentsskírteininu og húfunni var ég svo upptekin af því að passa hvar ég steig að ég missti stúdentshúfuna í gólfið fyrir framan alla. Ég var nú fljót að taka hana upp og koma mér fyrir á réttum stað en svo þurfti ég að hafa mig alla við að fara ekki að skellihlæja yfir þessum klaufaskap.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Sko það hefur ýmislegt komið til greina: prinsessa, hjúkrunarfræðingur, sirkuslistamaður, leikari, píanóleikari, kennari og svo mætti lengi telja.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Pétur nágranni!
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það væri mjög áhugavert að prófa að vera Ed Sheeran því hann er svo rosalega hæfileikaríkur!
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Sko, að sjálfsögðu myndi ég helst vilja útrýma fátækt og stöðva öll stríð en ég held það myndi taka aðeins meira en einn dag að ná því markmiði svo ég myndi líklega bara gefa öllum í heiminum frían ís eða eitthvað.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef skrifað skáldsögu!
Mesta afrek í lífinu: Það að komast (tiltölulega) heil á húfi í gegnum heimsfaraldurinn.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast í framtíðina til ársins þegar Ísland vinnur Eurovision! Vonandi þarf ég ekki að ferðast of langt fram í tímann til þess.
Lífsmottó: Þú getur allt sem þú ætlar þér!
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég er að koma heim eftir stutta heimsókn í Svíþjóð svo ég mun líklega bara pakka upp úr töskum og taka því rólega.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinTónlistarmessa í Strandarkirkju á sunnudag
Næsta greinKraftmikil ballaða frá Stuðlabandinu