Kristbjörg Guðmundsdóttir á Laugarvatni var á dögunum ráðin forstöðumaður íþróttamannvirkja Bláskógabyggðar. Um nýja stöðu er að ræða en undir hana heyra rekstur íþróttamiðstöðvanna í Reykholti og á Laugarvatni, auk umsjónar með íþróttavöllum. Kristbjörg starfaði áður sem forstöðumaður Íþróttamiðstöðvarinnar á Laugarvatni.

Fullt nafn: Kristbjörg Guðmundsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 17. maí 1991, í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Maki er Bjarni Steinarsson, við eigum Inga Leó 7 ára, Ólafíu 4 ára og Alexander 2 ára.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Kristrún Sigurfinnsdóttir frá Efsta-Dal 1 og Guðmundur B. Böðvarsson frá Laugarvatni.
Menntun: Fór í grunnskólann á Laugarvatni, kláraði Menntaskólann að Laugarvatni 2011, fór beint í líffræði í HÍ og entist bara í eitt ár. Fór svo í sálfræði og útskrifaðist með BSc  2016. Útskrifaðist sem förðunarfræðingur 2015.
Atvinna: Forstöðumaður íþróttamannvirkja Bláskógabyggðar.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég hef ekki lesið í mörg mörg ár annað en prjónabækur. En Harry Potter bækurnar hef ég lesið óteljandi sinnum og fæ ekki leið.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég bíð alltaf spennt eftir nýjasta Survivor.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Grease 1 og 2, og flest með Tom Hanks.
Te eða kaffi: Kaffi. Ég kann ekki á te.
Uppáhalds árstími: Sumar og sól.
Besta líkamsræktin: Blak! Ég byrjaði að æfa síðastliðið haust, ótrúlega skemmtilegt.
Hvaða rétt ertu best að elda: Lasagne.
Við hvað ertu hrædd: Að eitthvað skríði upp í mig meðan ég sef og að vera í djúpum sjó þar sem ég sé ekki niður á botn.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 6:40.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlamma mér í sófann, set á góðan þátt og prjóna.
Hvað finnst þér vanmetið: Gúrka á pulsu!
En ofmetið: Erfið spurning. Mér finnst gin vont.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Svört sól með Sóldögg.
Besta lyktin: Lyktin af höfðinu á nýfæddum börnum.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að skúra. Svo þegar maður gerir það loksins er það
bara ekkert svo leiðinlegt.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Brostu við heiminum, þá brosir heimurinn við þér.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn, en eftir að börnin komu er ég tilneydd
til þess að vera morgunkona.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Að fara ríðandi í æsku að Brúarfossi á sumarkvöldi, áður en allir aðrir uppgötvuðu staðinn.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Blautir sokkar, óheiðarlegt fólk og bílavesen.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var starfsmaður á Bráðamóttökunni í Fossvogi og sá um að fylgja sjúklingum í myndatökur. Ég átti að fylgja manni, sem var með konuna sína með sér. Ég spurði fólkið alltaf hvort það treysti sér til að ganga, eða vildi frekar hjólastól. Svo kom í ljós að maðurinn var lamaður. Honum fannst þetta atvik ekki fyndið og alls ekki konunni hans.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Dýralæknir eða leikari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég er með mjög einfaldan húmor, byrja daginn oft á einum laufléttum fimmaur. Chandler í Friends gleður mig alltaf.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera Birgitta Haukdal einn góðan laugardag upp úr aldamótunum. Held að það hafi verið veisla!
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég mundi stoppa öll stríð og koma meiri jöfnuði á stéttirnar
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég var rosaleg glímukona þegar ég var yngri.
Mesta afrek í lífinu: Að ala börnin mín upp sem góða og hjálpsama einstaklinga.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Erfið spurning! Væri gaman að kíkja á Woodstock, eða sjá hvernig lífið var þegar Íslendingar bjuggu ennþá í hellum.
Lífsmottó: Þar sem er vilji, þar er vegur
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Dúllast heima með fjölskyldunni.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinKnattspyrnusumarið byrjað!
Næsta greinFimleikaveisla að baki hjá Selfyssingum