Selfyssingurinn Lovísa Þórey Björgvinsdóttir náði frábærum árangri í nemakeppni Kornax í síðustu viku, þar sem bakarnemar kepptu sín á milli. Lovísa varð í 3. sæti eftir jafna og spennandi keppni og fékk að launum 10 þúsund króna gjafabréf frá Líflandi, Kornax bikar og trébretti og leðursvuntu frá Landsambandi bakarameistara. Afurðir keppenda voru glæsilegar og bakarastéttinni til mikils sóma en keppnin, sem haldin er árlega, færir keppendum dýrmæta reynslu sem mun nýtast mjög vel í verkefnum eins og verklegu lokaprófi og sveinsprófi.

Fullt nafn: Lovísa Þórey Björgvinsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd á Selfossi 15. október 2002.
Fjölskylduhagir: Ég á kærasta sem heitir Teddi. Ég á tvö systkini sem heita Ísak Þór og Eva Dagmar og svo hundinn Mosa.
Hverra manna ertu: Pabbi minn heitir Björgvin Guðmundsson og mamma mín heitir Agnes Ósk Snorradóttir. Ég vann svo sannarlega í foreldra lottóinu.
Menntun: Ég er núna á samningi í bakaraiðn hjá Bæjarbakaríi í Hafnarfirði. Stunda nám í bakaraiðn í MK og stefni á sveinspróf í vor. Ég lauk grunnnámi í matvælagreinum frá VMA. Áður en ég ákvað að verða bakari þá langaði mig að læra bílamálun. Ég lauk því grunnnámi í bíliðnum frá FSu.
Atvinna: Bakaranemi hjá Bæjarbakaríi í Hafnarfirði.
Besta bók sem þú hefur lesið: Uppskriftabókin í vinnunni. Annars les ég ekki mikið.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: The Kardashians.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Engin sem mér dettur í hug.
Te eða kaffi: Kakó.
Uppáhalds árstími: Haustið, því það er svo kósí og þá ég líka afmæli.
Besta líkamsræktin: Hnoða brauð.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er frekar góð í að elda. Tedda finnst ég gera rosalega góðan fisk í raspi. Annars sérhæfi ég mig í pastaréttum.
Við hvað ertu hrædd: Ég held að ég hræðist ekki mikið. Það sem ég hræðist þó mest er að missa ástvini mína. En ég sef alveg fyrir því.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Þegar ég er á ofnavöktum fer ég á fætur klukkan sirka 3:30. Annars vakna ég oftast klukkan 5:15. Þegar ég má sofa út vakna ég milli klukkan 8 og 10.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mér finnst gott að fara í bað eða út í göngutúr. En eftir erfiðan vinnudag fer ég yfirleitt beint upp í rúm.
Hvað finnst þér vanmetið: Það sem mér finnst vanmetið er súpur… ég elska góðar súpur. Fólk veit ekki hverju það er að missa af. Það eru til svo góðar súpur þarna úti.
En ofmetið: Súkkulaði kökur eru ofmetnar, það er svo margt annað betra til.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Mér dettur eitt lag í hug sem kom mér alltaf í gírinn þegar ég var að æfa mig fyrir nemakeppnina. Það er lagið Hey Baby með Pitbull og T-Pain. Geggjað lag!
Besta lyktin: Ég er algjör ilmkertakífill. Mér finnst lavender lykt mjög góð og mahogany teakwood líka.
Bað eða sturta: Bað ef ég kemst í það annars sturta. Aldrei að standa ef þú getur legið.
Leiðinlegasta húsverkið: Vaska upp og ryksuga mottur. Ég er með svo margar mottur heima hjá mér sem ég á í love/hate sambandi við.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að mér eru allir vegir færir. Mamma minnir mig reglulega á það.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er morgunhani. Mér finnst gaman að byrja daginn snemma og láta eitthvað verða úr honum.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það eru margir staðir svo fallegir. Mér finnst Ísland svo fallegt. Það er eitthvað við Norðurlandið sem heillar mig. Vestfirðir eru líka geggjaðir. Ég sé fegurðina allstaðar. Ég elska há tré og göngustíga og náttúrulaugar og sæki mikið í þannig umhverfi. Jökulsárlón er líka í miklu uppáhaldi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það sem fer mest í taugarnar á mér er óþolinmæði, ýtni og slæm umgengni. Ég á líka voða erfitt með fordóma og óréttlæti.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ekkert sem man eftir eða vil muna eftir.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Þegar ég var mjög lítil ætlaði ég að verða einhyrningur, fannst það mjög áhugavert af einhverjum ástæðum. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á bílum og stefndi lengi á að verða bílamálari. Ég hafði líka áhuga að verða kokkur. Ég hef samt alltaf haft gaman að því að baka og byrjaði mjög ung að baka heima. Ég fékk mjög mikla hvatningu til þess að gera tilraunir í eldhúsinu. Held að það sé mjög mikilvægt að leyfa krökkum að prófa sig áfram í eldhúsinu og treysta þeim til þess.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Brandararnir hans pabba eru alveg milljón.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég veit það ekki. Snýst þetta líf ekki bara um að lifa i núinu?
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Tik Tok.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þetta þarf ég að hugsa mjöööög vel.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég þoli ekki ef einhver er fyrir mér þegar ég er að vinna i eldhúsinu. Fjölskyldan mín er búin að læra það að það er best að láta sig hverfa ef ég er þar.
Mesta afrek í lífinu: Að ná bóklega bílprófinu… en án djóks, takast á við áskoranir og sigra þær.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Væri til i að fara aftur til fortíðar og keyra flotta bíla og sjá og upplifa bílamenninguna á síðustu öld.
Lífsmottó: Sky is the limit.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Vinna.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinAlexander Adam í liði Íslands á MXoN
Næsta greinSelfyssingar orðnir 10 þúsund