Í ár eru tíu ár síðan BMX bræðurnir Benedikt og Magnús slógu í gegn í hæfileikaþáttunum Ísland Got Talent. Seinna bættist Krulli í hópinn og eftirleikinn þekkja allir, en þeir félagarnir hafa verið vinsælasta atriðið á bæjarhátíðum og ýmsum skemmtunum síðasta áratuginn. Verslunarmannahelgin er stór helgi hjá BMX BRÓS sem munu þeysa landshornanna á milli, þeir verða á Flúðum á laugardag og í Neskaupstað á sunnudag. Magnús Bjarki er Sunnlendingur vikunnar að þessu sinni.

Fullt nafn: Magnús Bjarki Þórlindsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist þann 28. febrúar árið 1995 í Reykjavík, en það var vegna þess að ég fæddist akkúrat mánuði fyrir tímann. Ég fékk svo fljótlega að rúlla heim á Selfoss.
Fjölskylduhagir: Bý með kærustu minni henni Arndísi Sif Arnarsdóttur og tveimur köttum, Míu og Mosa.
Hverra manna ertu: Faðir minn og besti vinur er Rúnar Þórlindur Magnússon, ættaður frá Neskaupstað og á ég því frábærar rætur að rekja þangað. Móðir mín er Þórdís Sólmundardóttir sem rak Pylsuvagninn á Selfossi um árabil með ömmu minni Ingunni. Svo á ég frábæra stjúpforeldra, Hildigunnur Jörundsdóttir og Símon Ingvar Tómasson.
Menntun: Kláraði 4. stigs vélfræði/vélstjórnar menntun árið 2019 og tók síðan sveinspróf í vélvirkjun stuttu seinna. Frábært nám sem gagnast mér á hverjum degi.
Atvinna: Útleiga/uppgerð fasteigna, BMX-sýningar, BMX-námskeið og önnur verkefni hjá Brós fasteignir.ehf (BMX-BRÓS).
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég mætti klárlega vera duglegri að grípa í bækur almennt, en ég tengdi mikið við hugmyndafræði Rich Dad Poor Dad eftir Robert T. Kiyosaki. Gæti verið klisjulegt að nefna hana en mæli sterklega með henni.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég verð að segja Better Call Saul, á erfitt með að klára þáttaraðir almennt en sat límdur yfir öllum þáttaröðunum af þessum.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Þær eru nokkrar, ég er mikill aðdáandi af 90’s bíómyndum og ef ég á að velja eina þá er það Snatch eftir Guy Ritchie.
Te eða kaffi: Klárlega kaffi en væri til í að gefa mér meiri tíma í að prófa og drekka oftar ýmiss konar te.
Uppáhalds árstími: Ég hef alltaf haft gaman af haustinu, veðrið oft frábært en litlar væntingar til þess. Svo auðvitað fallegir litir um allt í náttúrunni á þeim tíma.
Besta líkamsræktin: Ég hef stundað Crossfit-æfingar í Crossfit Selfoss meðfram BMX-hjólreiðum núna í nokkur ár og dýrka það. Bætir og viðheldur styrk, sprengikrafti og liðleika en það eru undirstöðurnar fyrir því að geta haldið sér góðum í BMX-sportinu.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ætli það sé ekki bara matarmikil eggjakaka. Mætti klárlega vera duglegri að prófa nýja og framandi rétti í eldhúsinu.
Við hvað ertu hræddur: Það eru svona tveir hlutir sem ég er hræddastur við og eru það köngulær og flugvélar. Köngulær eru bara almennt ógeðslegar og svo á ég bara erfitt með að treysta fljúgandi ál-cylinder á 800 kílómetra hraða í 10 kílómetra hæð.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég er að klifra fram úr sirka 06:45 á virkum dögum og sef síðan „út“ um helgar til sirka 08:00. Finnst æðislegt að byrja snemma og bölva því að hálfur dagurinn sé búin ef ég slysast til að vakna um 10-11:00.
Hvað gerir þú til að slaka á: Slaka mest á í bílskúrnum að skrúfa í fornbílunum mínum eða í hægindastólnum inni í stofu.
Hvað finnst þér vanmetið: Bensínstöðvar kaffi í upphafi dagsins. Það er einhver stemning í loftinu á þessum bensínstöðvum á morgnanna.
En ofmetið: Útreiknuð umhverfisáhrif lausra plasttappa á flöskum. Þoli ekki þessa áföstu tappa.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Digital Dash með Drake og Future af plötunni What a Time to be Alive. Er alæta á tónlist en þetta lag kemur mér alltaf í gír.
Besta lyktin: Af hreindýrabollunum hjá pabba og ekki er bragðið síðra.
Bað eða sturta: Sturta, en það er af því að ég á ekki baðkar því miður.
Leiðinlegasta húsverkið: Ég myndi segja að leiðinlegast sé að ryksuga húsið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Að reyna að mæta öllum verkefnum með opnum og jákvæðum hug. Það er ótrúlegt hvað einfalt verkefni verður tímafrekt og flókið ef hausinn er ekki til staðar.
Nátthrafn eða morgunhani: Hef alla tíð verið morgunhani, er farinn að sofna yfir sjónvarpinu um 23:00. Það var vinsælt áður fyrr hjá vinunum að skilja mig eftir í bíó ef myndin byrjaði um 22:00, ég sofnaði alltaf.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Hef ferðast slatta innan- sem og utanlands. Ég verð að segja Phi Phi eyjurnar í Tælandi eða útsýnið yfir Austfirði frá Oddskarði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Það er hiklaust neikvæðni og óþarfa tuð yfir engu. Þar á eftir er fólk í umferðinni sem gefur í og hægir á trekk í trekk úti á þjóðveginum, þá hverfur allt coolið. Jú og áfastir tappar.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Var 18 ára gamall og nýbúinn að kaupa afturhjóladrifinn BMW E30 fornbíl sem ég á enn í dag. Ákvað að sýna félögunum inni á Nettó planinu hvernig það ætti að reykspóla almennilega en tók ekki eftir því að eini bíllinn á Austurveginum var að sjálfsögðu lögreglan. Hún beygði bara inn á planið og í veg fyrir mig, svo var mér bent vinsamlegast á það að hoppa inn í bíl til þeirra. Mér þótti þetta voðalega vandræðalegt allt saman.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Fyrirtækjaeigandi eins og amma, sú hugmynd heillaði mig alltaf að geta unnið alfarið fyrir hlutunum sjálfur. Hafði samt á þeim tíma enga hugmynd um það hvað mig langaði að stofna.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Þarna verð ég eiginlega að segja Selfyssingurinn Davíð Örn Bragason. Við hittumst örsjaldan en þegar að það kemur fyrir þá er ég alltaf grenjandi úr hlátri.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Þarna koma fjölmargir upp í hausinn. Ég væri líklegast til í að vera Neil Armstrong á þeim tíma þegar að hann steig á tunglið, hefur líklegast verið mjög yfirþyrmandi tilfinning.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Klárlega Facebook, er inni á endalaust af merkilegum síðum um málefni tengt áhugamálunum mínum. Svo eyði ég klárlega of miklum tíma inni á Facebook Marketplace að reyna að finna góða díla á öllu og engu.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi stuðla að friði milli stríðandi ríkja, komið gott af þessu stríðsbrölti út um allt.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég get talið frá einum upp í 10 á kóresku og hef einnig brotið 10 bein á hjólreiðaferlinum. Svo borða ég sirka einn lítra af ís í hverri viku, ég elska ís.
Mesta afrek í lífinu: Mér finnst það persónulega afrek að hafa tekið örlítið BMX-sport og breytt því í fulla vinnu sem skilur eftir sig aðdáendur um allt land. Að geta í kjölfarið haldið árleg námskeið og stuðlað að heilbrigðum lífsstíl og hjálmanotkun fyrir krakka er eitthvað sem ég er mjög stoltur af.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi ferðast langt aftur á bak í tímann til Egyptalands. Það er mikil ráðgáta hvernig píramídarnir voru byggðir og ég gæti fylgst aðeins með þessu, jafnvel lánað þeim Milwaukee verkfærin mín.
Lífsmottó: Þú skapar þína eigin heppni, þeir sem eru duglegri eru almennt heppnari.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Næsta helgi verður uppfull af geggjuðum BMX-BRÓS sýningum og heilmiklum akstri. Á laugardeginum verðum við með sýningu á Flúðum klukkan 13:30 og svo leggjum við í hann til Neskaupstaðar þar sem við verðum með sýningu klukkan 13:00 á sunnudeginum. Hlökkum mikið til að sjá ykkur um helgina og að sjálfsögðu gætum við ekki haldið þessar sýningar án okkar styrktaraðila: Serrano, Ölgerðin, Adidas, Cintamani, Verkfærasalan, Lune raftækjaverslun og Krónan.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinFalleg fjölskyldu- og bæjarhátíð
Næsta greinÞrumuveður og vatnavextir á Suðurlandi