Þrjátíu og sjö nýstúdentar brautskráðust frá Menntaskólanum að Laugarvatni á dögunum. Bestum heildarárangri nýstúdenta náði Margrét María Ágústsdóttir frá Selfossi en hún var með aðaleinkunnina 9,39 sem er vegið meðaltal allra áfanga sem hún tók við skólann á þriggja ára námsferli sínum.

Fullt nafn: Margrét María Ágústsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 22. janúar 2002 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég bý í foreldrahúsum og á tvo yngri bræður.
Menntun: Stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni.
Atvinna: Ég var svo heppin að fá draumasumarstarfið sem flokkstjóri í unglingavinnunni í Flóahreppi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Æ, þessi spurning er voðalega erfið en Hroki og hleypidómar eftir Jane Austen hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi. Einnig Anna í Grænuhlíð, Eleanor og Park, Kyrtillinn og Steiktir grænir tómatar.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég ætla að vera mjög dæmigerð hér og segja Friends og The Office, That ´70s Show og Brooklyn Nine-Nine.
Te eða kaffi: Te, en kaffi til hátíðabrigða.
Uppáhalds árstími: Allar árstíðir hafa sinn sjarma en mér þykir svo gaman að ganga á fjöll að svarið verður að vera íslenska sumarið.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur og sund.
Hvaða rétt ertu best í að elda: Kjúklingabringur með því sem til er í ísskápnum hverju sinni.
Við hvað ertu hrædd: Ég er alveg ofboðslega hrædd við sprautur, þoli þær bara alls ekki!
Klukkan hvað ferðu á fætur: Um 7:15 á virkum dögum og reyni að vakna ekki seinna en 11 um helgar. Mér finnst svo leiðinlegt að missa af of miklu af deginum.
Hvað gerir þú til að slaka á: Geng á fjöll og legg mig í mosanum.
Hvað finnst þér vanmetið: Þögn.
En ofmetið: Bernaisesósa, í hreinskilni sagt finnst mér bara ekkert varið í hana.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Hammer To Fall með Queen, það klikkar aldrei.
Besta lyktin: Á smíðaverkstæðinu hans Óla afa í Forsæti.
Bað eða sturta: Sturta vegna þess að það er umhverfisvænna, en það er auðvitað miklu notalegra að fara í bað.
Leiðinlegasta húsverkið: Að setja í uppþvottavélina.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ekki setja pastað í pottinn fyrr en vatnið er byrjað að sjóða.
Nátthrafn eða morgunhani: Nátthrafn. Það er svo notalegt að vaka frameftir við bókalestur eða annað þegar flestir aðrir eru sofandi.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Stóri-Botn í Hvalfirði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk grípur fram í fyrir öðrum.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Þegar ég var 9 ára var ég fengin til að dansa balletdans (sem mamma samdi) á 17.júní hátíð á Egilsstöðum. Á leiðinni út af sviðinu flaug ég á hausinn í rauða tjull-balletkjólnum og alles.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Það var svo margt! Leikari, kennari, sálfræðingur, einbúi, stjórnmálakona, listamaður o.fl.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Mamma.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Elísabet 2. Bretadrottning. Það væri mjög skemmtilegt að fylgjast með lífi hennar og störfum í einn dag.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég leysa loftslagsvandamál heimsins.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Mér finnst Bogi Ágústsson æðislegur. Hann hefur verið uppáhalds fréttamaðurinn minn frá því ég man eftir mér. Bogi, ef þú lest þetta, þú ert frábær!
Mesta afrek í lífinu: Að fá næga styrki til þess að fara í háskóla í Bandaríkjunum í haust, þar sem ég ætla að læra félagsráðgjöf og líklega leiklist.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Aftur til landnematímabils Bandaríkjanna og halda vestur. Þegar ég var yngri las ég bækurnar um Laura Ingalls og síðan þá hefur það verið draumur.
Lífsmottó: Lífið er allt of dýrmætt til þess að þykjast vera einhver annar en maður sjálfur.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Fara í stúdentsveislu til vinkonu minnar og kannski kíkja á eldgosið.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinStokkseyri varð af mikilvægum stigum
Næsta greinGott bíósumar framundan