Harpa Elín Haraldsdóttir er nýráðinn forstöðumaður Kötluseturs í Vík í Mýrdal. Harpa er vel kunnug Mýrdalnum, en hún ólst þar upp og er að koma aftur heim til Íslands eftir 17 ára búsetu erlendis. Undanfarin ár hefur Harpa tekist á við ýmis verkefni; hún var meðal annars verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Níkaragva, framkvæmdastjóri GeoThermHydro í Chile og nú síðast verkefna- og mannauðsstjóri hjá Nisum Chile.

Fullt nafn: Harpa Elín Haraldsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 28. janúar 1980 á fæðingarheimilinu í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég og sonur minn León Ingi erum að nýflutt til Víkur í Mýrdal en Pablo maðurinn minn verður enn um sinn í Síle.
Menntun: Mannfræðingur frá Háskóla Íslands, master í alþjóðatengslum frá IBEI í Barcelona, leiðsögumaður frá Leiðsöguskóla Íslands og svo diplómanám tengd verkefnastjórn, atvinnurekstri og umhverfismálum. Svo er ég líka afar stolt af grunn HTML námskeiði sem ég tók með miklum snillingum Ki Teknology í Síle.
Atvinna: Forstöðukona Kötluseturs, miðstöð menningar, fræða og ferðamála í Mýrdalshreppi.
Besta bók sem þú hefur lesið: Æ, það er nú erfitt að velja úr. Ég hef alltaf notið þess að lesa, er ein af þessum sem las undir sæng með vasaljós löngu eftir háttatíma og er ekki, og hef aldrei verið, mikið í því að velja uppáhalds … hvað sem er. Allt hefur yfirleitt eitthvað við sig. En ef ég ætti að taka upp eina bók, núna, myndi það líkast til vera Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez. Finnst hún mögnuð. Er samt ekki að lesa þá bók í augnablikinu heldur ævisögu Sigrúnar Jónsdóttur, þeirrar merku lista- og athafnakonu frá Vík. Sigrún hefði einmitt orðið 100 ára 19. ágúst síðastliðinn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Mér þykir bara orðið mjög vænt um þær stöllur Grace og Frankie í samnefndum þáttum.
Te eða kaffi: Bæði betra, hvort á sinn hátt.
Uppáhalds árstími: Það er erfitt að gera upp á milli, enn og aftur: alltaf hægt að finna eitthvað gott í öllu. Nú er haustið að taka yfir, sem er yndislegt. Það er svo margt fallegt í haustinu.
Besta líkamsræktin: Labba upp á Reynisfjall, en svo finnst mér líka mjög gaman að dansa. Hef reyndar dansað upp á Reynisfjalli, það er líkast til bara best.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég er líkast til ekki besti dómarinn á það og finnst eiginlega skemmtilegra að baka. En varðandi rétti, þá er það mér lífsins ómögulegt að halda mig við uppskriftir og þarf alltaf að bæta við eða taka úr … hver innganga í eldhúsið verður að nokkurs konar gjörningi þar sem ekki er alveg á hreinu hvernig muni enda. Yfirleitt gengur þetta samt upp … er mér sagt.
Við hvað ertu hrædd: Öfga og skilningsleysi.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Í rútínunni í Síle var ég að var að vakna um 6, spurning hvernig þetta muni leggjast hérna heima.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mér finnst gott að reyna svolítið líkamlega á mig, fara svo í heitt bað og láta hugann reika.
Hvað finnst þér vanmetið: Áhugaverð söfn Kötluseturs en einnig hvað það er mikil snilld að nota jógabolta sem skrifstofustól.
En ofmetið: Tuð … of mikið stundað miðað við hvað það kemur yfirleitt lítið út úr því og og gerir engum gott.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Þau eru mörg og af ýmsum toga, tónlist er svo mögnuð, en eitt sem til dæmis klikkar ekki er Vivir mi vida með Marc Anthony.
Besta lyktin: Lyktin af nýslegnu grasi sem berst til manns með hlýrri golu.
Bað eða sturta: Sturtur eru ágætar en mér finnst yndislegt, yndislegt, að fara í gott bað. Það jafnast ekkert á við það!
Leiðinlegasta húsverkið: Leiðinlegasta húsverkið var klárlega alltaf að strauja, en svo uppgötvaði ég nýlega hversu mikil snilld það er svo í botnsætið hljóta þá að falla skúringar.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Ég hef fengið og tekið inn mörg góð ráð í gegnum ævina. En ætli eitt það besta og það sem ég hef heyrt og séð sannleikann í einna oftast sé ekki bara þetta, ráðið hefur reyndar ekki alltaf verið sett fram nákvæmlega svona: Deyr fé, deyja frændur, deyr sjálfur ið sama. En orðstír deyr aldregi, hveim er sér góðan getur.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er nátthrafn sem er að breytast í morgunhana.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru margir fallegir og mikilfenglegir staðirnir, en fyrir mér er enginn fegurri en Víkin og Mýrdalurinn.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Í augnablikinu, eftir frábæra daga í uppsveitum Árnessýslu, fer lúsmý mest í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Tja, það var frekar neyðarlegt þegar ég steig út úr leigubíl í Managua, í góðum félagsskap vinnufélaga og fulltrúa ríkisstjórnar Níkaragva, með eggjabakka í höndunum (það er önnur saga) og gjörsamlega hvarf öll á núll einni ofan í jörðina, eða réttara sagt niður í op í vatnslagnir borgarinnar. Mikilvægt er að það komi fram að ekki eitt einasta egg brotnaði.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég sá alltaf fyrir mér að a) bjarga heiminum og svo b) verða leikkona. Einfalt og gott.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hlæ alltaf mikið og innilega með mömmu og fjölskyldunni.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það gæti verið mjög skemmtilegt en ekki síður fræðandi að fá að upplifa einn dag sem León Ingi, sonur minn. Hvernig er hann að upplifa tilveruna?
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Svona hingað til hefur það eiginlega verið WhatsApp, en mér sýnist að við heimkomuna muni Facebook taka yfir.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Væri þá ekki málið að hendast í áður fyrirhuguð plön um að bjarga heiminum?
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Hingað til var það kannski að ég hef horfið ofan í jörðina með eggjabakka. En annað gæti verið að ég var fastagestur í morgunsjónvarpi í Níkaragva með dansinnslög og tók nokkrum sinnum þátt í “eldhúshorni” sama þáttar. Gaf þar meðal annars upp leiðbeiningar fyrir bakstur bananabrauðs og fékk að smakka hina safaríku ostaorma frá Chontales.
Mesta afrek í lífinu: Ég á það nú vonandi eftir en ég er bara nokkuð stolt af samansafni allra litlu afrekanna og hvernig það hefur tekist að snúa mótlæti í meðbyr.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Það væri nú gaman að geta skroppið svona af og til fram og til baka í tíma og tékka á hinum ýmsustu aðstæðum. En akkúrat núna og í tengslum við það sem við erum að gera í Kötlusetri, myndi ég helst vilja upplifa Ísland í byrjun tuttugustu aldar.
Lífsmottó: Fátt er svo með öllu illt að það geti ekki boðað eða falið í sér eitthvað gott.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Skella mér í Þakgil og prófa nokkrar af þessum frábæru gönguleiðunum þar!


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinEflum heilsugæsluna
Næsta greinFimm teknir próflausir í umferðinni