Ragnar S. Ragnarsson, sálfræðingur á Selfossi, sendi í haust frá sér bókina Mótorhausasögur, sem finna má í öllum betri bókaverslunum fyrir jólin. Í Mótor­hausa­sög­um skráir Ragnar sann­ar og sann­logn­ar gam­an­sög­ur af allskon­ar fólki í, við, und­ir, í kring­um og ofan á bíl­um, hér og þar. Þar má nefna Bald­ur búktal­ara, Dóru gjaf­mildu, Jón góðan dag­inn, Benna bens­ín­stíg­vél, Al­exöndru Mist, Magga á 80, Dóna í Garðlist, Stefni í Óefni og Stíg í Minna-Viti og Jesú Krist ásamt löggum, leigubílstjórum, bifvélavirkjum, flutningabílstjórum, páfanum og einni klækjóttri nunnu.

Fullt nafn: Ragnar S. Ragnarsson.
Fæðingardagur, ár og staður: Akureyri, 12. maí 1959.
Fjölskylduhagir: Hef átt sömu kærustuna, Ingu Úlfsdóttur, síðan 1987. Við eigum tvo syni, Hrafnkel Úlf starfsmann heimilis fyrir fólk með fötlun, í Reykjavík, og BA í heimspeki og Arnkel Ragnar starfsmann leikskólans Heklukots.
Menntun: Sálfræðingur með atferlisgreiningu sem sérsvið. Er einnig með kennsluréttindi frá HÍ og hef lokið staðarleiðsögunámi í Kötlu jarðvangi.
Atvinna: Sálfræðingur hjá Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings.
Besta bók sem þú hefur lesið: The Demon Haunted World-Science as a Candle in the Dark eftir Carl heitinn Sagan.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Síðan þættirnir um Dr. House liðu undir lok hef ég ekki fundið neinn betri.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Gullæðið með meistara Charlie Chaplin.
Te eða kaffi: Drekk hvorugt. En ég fúlsa ekki við Pepsi Max!
Uppáhalds árstími: Vorið, sem í mínum huga byrjar fyrsta morguninn sem ég sé dagsskímu í austri þegar ég fer til vinnu.
Besta líkamsræktin: Fjallgöngur, snjómokstur og bílaviðgerðir.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Það kemur í ljós í matreiðslubók sem ég hyggst gefa út með stórvini mínum Gústa Stolz undir höfundarnöfnunum Stefnir í Óefni og Stígur í Minna-Viti. Við erum bara búnir að ákveða titilinn: “Réttir réttir – Það er betra ef það er gott.”
Við hvað ertu hræddur: Ekki hræddur við neitt en smeykur, sem er diet útgáfa hræðslunnar, við jarðskjálfta yfir 6 á Richter.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 7:13 (ég er alveg laus við hjátrú).
Hvað gerir þú til að slaka á: Ég kemst á æðra tilverustig þegar ég horfi á lygnt stöðuvatn, sjó eða á.
Hvað finnst þér vanmetið: Þolgæði.
En ofmetið: Prófgráður.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Blues Number Five með Jay Johnson Band og One of These Days með Pink Floyd.
Besta lyktin: Af gumsi sem ég elda með önd að hætti Guangzhou búa.
Bað eða sturta: Sturta sem heldur að hún sé Dettifoss. Litlar sprænusturtur á að banna með lögum.
Leiðinlegasta húsverkið: Taka niður jólaskrautið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Sem unglingur í sveit hjá góðu frændfólki mínu lærði ég að leti væri verstur lasta.
Nátthrafn eða morgunhani: Hvorugt, en þó halla meira til hanans.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Tjarnargerði innst í Eyjafirði.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óstundvísi og óheilindi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Mætti einum degi of snemma á flugvöll í útlöndum. Það tók mig marga klukkutíma að komast að því hversvegna ekkert flug færi til Íslands fyrr en sólarhring síðar.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég var sekúndum frá að verða ketil- og plötusmiður eins og það hét þá. Hafði skráð mig í iðnskólann þegar mér bauðst ævintýraleg akkorðsvinna á loftpressu.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Uppistandararnir Rich Hall og Milton Jones.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Hefði gaman af að vera mamma mín þegar hún reyndi að ala mig upp. Hún hafði talsvert fyrir því blessunin.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook dugar mér.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá mundi ég breyta skólakerfinu að mínum hugmyndum fyrir hádegið og horfa á ávöxt breytinganna eftir hádegið. Halda svo upp á það um kvöldið.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég hef synt yfir Mississippi fljótið og til baka. Það munaði reyndar litlu að sú ferð yrði mér að fjörtjóni þegar hraðbátur sigldi næstum á mig. Þar um borð sá enginn haus á einhverjum gaur sem bókstaflega tefldi á tæpasta vaðið við fljótið.
Mesta afrek í lífinu: Kannski að hafa orðið þrisvar íslandsmeistari í kappakstri með bílvélum sem ég hef sjálfur valið hluti í og sett saman.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í æsilegan utanlandstúr með Agli Skallagrímssyni og áhöfn á knerrinum hans.
Lífsmottó: Það er tekið úr einum lagatexta Harðar Torfasonar: Lífið er oft línudans og lán manns snúið spil; en æfingin skapar meistarann og það er gott að vera til.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Nostra við einhvern þeirra sex bíla sem ég er skráður fyrir og lesa um náttúru fallega landsins okkar.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÞrjóskur fákur á þjóðveginum
Næsta greinNý vefsíða fyrir eldri aldurshópa