Sjöfn Dagmar Guðjónsdóttir frá Tjaldhólum í Hvolhreppi var í nóvember síðastliðnum ráðin hjúkrunarforstjóri á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli. Sjöfn þekkir vel til á Kirkjuhvoli en hún hefur starfað þar síðastliðin fjögur ár, síðast í afleysingu í stöðu hjúkrunarforstjóra og áður sem hjúkrunarfræðingur á heimilinu. Sjöfn Dagmar er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Sjöfn Dagmar Guðjónsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd í Reykjavík 11. apríl 1990.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Ragnari Jóhannssyni handbolta- og námsmanni. Saman eigum við tvo drengi þá Guðjón Garra 10 ára og Jóhann Jökul 6 ára. Síðan eigum við hund og kött þær Brögu og Karólínu.
Menntun: Ég er útskrifaðist sem hjúkrunarfræðingur frá HÍ árið 2015. Ég á síðan alltaf eftir að skrifa mastersritgerðina mína í stjórnun á heilbrigðisvísindasviði, vonandi verður það fyrr en seinna.
Atvinna: Ég er nýtekin við sem hjúkrunarforstjóri á Kirkjuhvoli hjúkrunar- og dvalarheimili á Hvolsvelli.
Besta bók sem þú hefur lesið: Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Þeir eru þó nokkrir en ætli ég verði ekki að segja Peaky Blinders. Þeir voru það góðir að ég vakti langt fram á nætur til að horfa á þá.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Pride and Prejudice með Keira Knightley. Ég hef vandræðalega oft horft á þá mynd.
Te eða kaffi: Bæði, tveir bollar kaffi og einn bolli te. Fæ mér ekki kaffi eftir kl. 12, annars sofna ég ekki.
Uppáhalds árstími: Hver árstíð hefur sinn sjarma, en ég hlakka allt mikið til þegar haustið nálgast. Það er eitthvað við rútínu eftir rútínuleysi sumarsins sem ég heillast mikið af.
Besta líkamsræktin: Allt sem nærir anda og eykur vellíðan. Á sumrin er góð fjallganga eða göngutúr það allra besta. Þá er ég nýfarin að synda aftur og nýt þess mikið.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég elska að stússast í eldhúsinu. Hvað er best er ekki gott að segja.
Við hvað ertu hrædd: Ég er hrædd við að missa heilsuna.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer yfirleitt ekki á fætur seinna en sjö.
Hvað gerir þú til að slaka á: Les góða bók, samvera með fjölskyldu.
Hvað finnst þér vanmetið: Íslenskt veður! Við erum alltof neikvæð út í það, ég þar með talin.
En ofmetið: Næturlíf Reykjavíkur.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Dancing on my own með Robyn.
Besta lyktin: Nýslegið gras að sumri til.
Bað eða sturta: Sturta, en það er voða gott að fara í bað þegar tími gefst.
Leiðinlegasta húsverkið: Skúra gólf og brjóta saman þvott.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Komdu fram við aðra eins og þú vilt láta koma fram við þig.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég á mjög auðvelt með að vakna á morgnana, þannig að ég telst líklegast í morgunhana hópnum.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Ísland er algjör paradís þegar kemur að fallegum stöðum. Seinasta sumar gekk ég að Grænahrygg og það verður að segjast að litirnar sem eru svo einkennandi fyrir þetta svæði eru algjört augnakonfekt.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Yfirgangur og ókurteisi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég er alger snillingur að koma mér í neyðarlegar aðstæður. Nýjasta atvikið er örugglega þegar ég fór með svilkonu minni í fatabúð rétt fyrir jólin. Hún segist ætla að máta fötin. Ég ætla síðan að kíkja á hana og mér til gamans sting ég hendinni inní fataklefann og fer að leika „Thing“ úr Addams family. Ég kalla nafn hennar tvisvar og fæ enginn viðbrögð í þriðja skiptið fæ ég viðbrögð en þau voru ekki úr mátunarklefanum heldur innan úr búðinni. Þá var ég semsagt með hendina inni í mátunarklefa hjá einhverju ókunnum einstakling sem þorði ekki fyrir sitt litla líf að segja neitt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Lengi vel ætlaði ég að verða dýralæknir en lengst af öllu ætlaði ég að verða prestur. Það var síðan stór vendipunktur í þeim efnum þegar ég sagði langömmu minni heitinni frá mínum framtíðardraumum. Hún bað guð að forða mér frá því að verða prestur þar sem þeir væru svo drykkfelldir og ekki vildi hún að ég myndi ánetjast áfengi.
Fyndnasta manneskja sem þú veist um: Ég er mjög heppinn að eiga bæði skemmtilega fjölskyldu, vini og vandamenn. En ég held að ég verði að segja Sonja Huld Guðjónsdóttir, frænka mín og besta vinkona. Hún hefur frásagnargáfu af guðs náð og ég hef ófáum stundum legið í krampa yfir því sem vellur uppúr henni.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Væri ágætt að vera Beyonce í einn dag og standa á einhverju stóru sviði og gaula eins og nokkur lög.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Það myndi vera Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ég myndi reyna að deila auði þessa heims á aðeins fleiri staði.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég bjó í Þýskalandi og ég elska Harry Potter.
Mesta afrek í lífinu: Fjölskyldan mín og allt sem við höfum gert saman.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi fara aftur í tímann og hitta afa Braga. En ég hitti hann aldrei.
Lífsmottó: Þetta reddast.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Það er ekkert planað, ég er svona eins og flestir að reyna að komast í gegnum febrúar. Bíða eftir að lægðirnar yfirgefi okkur og birta tekur á ný.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHSK sækir um að halda Landsmót 50+
Næsta greinGul viðvörun á laugardag