Fjölskyldu- og menningarhátíðin Fjör í Flóa verður haldin í Flóahreppi um helgina. Dagskráin er fjölbreytt; opin hús á bæjum, kvöldganga, jóga og fjölbreytt fjölskyldudagskrá með vélasýningu og sölubásum svo fátt eitt sé nefnt. Hátíðinni lýkur á kvöldvöku í Þingborg þar sem boðið verður upp á fjölbreytta tónlistarveislu. Sigrún Hrefna Arnardóttir í Skyggnisholti heldur um stjórntaumana á hátíðinni og hún er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Sigrún Hrefna Arnardóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég er fædd í Reykjavík 16. maí 1974.
Fjölskylduhagir: Er gift Victori Björgvin Victorssyni og við eigum þrjá stráka, Victor Örn 19 ára, Viðar Hrafn 16 ára og Stein Þorra 9 ára. Við búum í Flóahreppi og höfum búið þar í 12 ár í þessari dásamlegu sveit.
Menntun: Ég er menntuð kjólaklæðskeri frá Tækniskóla Íslands og lauk sveinsprófi í kjólasaumi. Starfaði við það á tímabili ásamt öðrum hönnunarstörfum.
Atvinna: Í dag starfa ég sem ferðaþjónustubóndi í Flóahreppi þar sem við fjölskyldan erum að smíða smáhýsi fyrir ferðaþjónustu. Einnig sinni ég formennsku íi íþrótta-, æskulýðs- og menningarnefnd Flóahrepps og starfa þar með breiðum hópi af frábæru fólki, er einnig virk í Kvenfélagi Villingaholtshrepps þar sem vinnum að fjölbreyttum verkefnum til góðgerðarmála. Það er gefandi og gott starf í góðum félagsskap.
Besta bók sem þú hefur lesið: Mér finnst bækurnar eftir Jenny Colgan æði, svo hlusta èg mikið á Storytel, síðasta saga sem ég hlustaði á var, Maður sem heitir Ove. Þvílík snilldar saga og skemmtileg frásögn. Ég mæli með henni.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Alltaf gaman að horfa á Heimsókn með Sindra og fá nýjar hugmyndir hef mikinn áhuga á allri hönnun og því að breyta og bæta, svo klikkar ekki að horfa á Yellowstone og Crown.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Alltaf hægt að horfa á Coming to America og Home Alone aftur og aftur. Bróðir minn fann svo eina eldgamla klassík um daginn Adventures in Babysitting sem sló í gegn hjá yngri kynslóðinni og öllum hinum.
Te eða kaffi: Drakk alltaf te, byrjaði að drekka kaffi eftir fertugt þetta var orðið svo vandræðalegt að drekka ekki kaffi og búa í sveit.
Uppáhalds árstími: Alltaf gott að fá vorið og sumarið aftur eftir harðan vetur en haustið finnst mér frábær tími og oft koma góðir veðurdagar og rólegri tími til að njóta eftir annasamt sumar.
Besta líkamsræktin: Finnst flestar íþróttir mjög skemmtilegar, göngur, jóga, gönguskíði, og golf. Svo er besta leiðin til í að halda sèr í alvöru formi að stunda girðingavinnu.
Hvaða rétt ertu best að elda: Góður lasagne-réttur með parmesan, salati og hvítlauksbrauði klikkar ekki.
Við hvað ertu hrædd: Geitunga.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 07:20, þá styttist í skólabílinn.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer í sund, heita og kalda pottin, hlusta á sögur og svo er alltaf gott að vinna í garðinum og fara á hestbak.
Hvað finnst þér vanmetið: Kyrrstaða.
En ofmetið: Sérfræðingar.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Crazy Little Thing með Queen kemur manni alltaf í stuð.
Besta lyktin: Vanilla.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að flokka sokka.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Gömul speki frá pabba mínum heitnum, ef þú gerir ekki neitt þá gerist ekki neitt!
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Dynjandisvogur að vori mikil upplifun að ferðast um Vestfirðina.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Afskiptasemi og óheiðarleiki.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Vil ekki muna það.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Hárgreiðslukona eða flugfreyja það síðarnefnda starfaði èg svo við í tíu ár og ferðaðist mikið um heiminn og hafði gaman að.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Sölvi frændi algjör snillingur og óborganlega fyndin týpa.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Tina Turner á tónleikum á sviði, vá, það væri augljóslega alveg sturluð stemning.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram og Snapchat.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Semja um betra og stöðugra veður á Íslandi og jákvæðari fréttaflutning.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Best að halda því leyndu.
Mesta afrek í lífinu: Að flytja úr borg í sveit var stórt skref sem öllum fannst frekar skrýtið á sínum tíma en frábært tækifæri að fá að ala upp börnin okkar og búa í frábæru sveitafélagi þar sem öllum líður vel og fá að njóta sín.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Hefði viljað upplifa tísku tímabilið 1920-1930 finnst það svolítið sjarmerandi.
Lífsmottó: Að vera víðsýn.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Halda fjölskyldu og menningarhátíðina Fjör í Flóa í Flóahreppi ásamt fullt af frábærum sveitungum, hátíðin hefst á föstudag og er frábær dagskrá framundan hjá okkur fram á laugardagskvöld, hlökkum til að taka á móti gestum og eiga frábæra helgi saman í Flóahreppi.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinHamar og Uppsveitir komust ekki á blað
Næsta greinBraz hjá Ægi fyrir norðan