Harpa Rún Kristjánsdóttir frá Hólum undir Heklurótum var kosin formaður Bókabæjanna austanfjalls á aðalfundi félagsins fyrir skömmu. Bókabæirnir austanfjalls eru klasi samstarfsaðila sem tengjast bókum, menningu og ferðaþjónustu á svæðinu. Verkefnið er hluti af alþjóðlegu samstarfi Bókabæja sem starfa í 14 löndum og þremur heimsálfum. Harpa Rún er þó ekki með nefið ofan í bókum þessa dagana því nú snýst allt um sauðburðinn í Hólum.

Fullt nafn: Harpa Rún Kristjánsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 22. janúar 1990. Fæddist í Reykjavík en gerði þar stuttan stans.
Fjölskylduhagir: Pabbi heitir Kristján Gíslason og mamma Guðrún Auður Haraldsdóttir. Ég á tvo bræður, Harald Gísla og Rökkva Hljóm og einnig kærasta sem heitir Sigurður Rúnar Rúnarsson.
Menntun: MA próf í Almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Svo er ég alin upp í sveit af mörgum kynslóðum manna og málleysingja, það er held ég besta menntunin.
Atvinna: Ég er þessa dagana í sauðburði heima í Hólum. Svo vinn ég hjá Sæmundi bókaútgáfu og í Bókakaffinu auk allskonar lausamennsku og verkefnavinnu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Á Saltkráku eftir Astrid Lindgren er best ásamt Bróður mínum Ljónshjarta. En líka Dalalíf eftir Guðrúnu frá Lundi og Hús andanna eftir Alliende og Frelsi eftir Lindu Vilhjálms og NEI! eftir Ara Jósepsson (það var aldrei að fara að koma bara ein!).
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Sjónvarpsþroski minn staðnaði um 13 ára aldur. Ég horfi alltaf bara á Gilmore Girls aftur og aftur.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Glætan að ég nenni að horfa á eitthvað oftar en einu sinni! Af hverju var ekki önnur bókaspurning? Síðast þegar ég horfði ítrekað á bíómynd var árið 1995 og það var Konungur ljónanna.
Te eða kaffi: Kaffi. Sjá svarið við sjónvarpsþáttaspurningunni.
Uppáhalds árstími: Eftir að ég losnaði úr rútínu skólaársins og fór að njóta ársins sem hringrásar þá er það eiginlega allur tími ársins. En afþví ég á kindur þá eru vor og haust yndisleg!
Besta líkamsræktin: Þessa dagana er ég að vinna með lambaburð og vatnsfötu-rog til skiptis.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég geri betra eggjabrauð en Sigurður en annars elda ég aldrei sama matinn tvisvar, þetta gerist bara.
Við hvað ertu hræddur: Fugla inni í húsum og loftslagsbreytingar.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Núna undanfarið á bilinu 3:15 til 10. En ég legg mig gjarnan þarna á milli.
Hvað gerir þú til að slaka á: Les og sef á víxl, en það er ágætt að fara út og anda líka.
Hvað finnst þér vanmetið: Endurvinnsla og nægjusemi. Einnig hæfileikar mínir til að flauta.
En ofmetið: Efnisleg gæði, auðvaldshyggja og hylkjakaffivélar! Hvaða ógeð er það?
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Hærra minn guð til þín.
Besta lyktin: Fúkkalyktin af jólatrénu, fyrsti sláttur og litlu frændsystkini mín (þegar þau eru hrein).
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Þvo upp slátur-og grjónagrautarpotta.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Mín nánustu segja mér oft að bíða nú aðeins við, því ætti ég að hlýða oftar. Svo sagði Jóhanna María vinkona einu sinni af mikilli festu yfir sjálfsefasemdakaffibolla: EKKI VERA HRÆDD VIÐ HUGMYNDIRNAR ÞÍNAR! Út úr því kom góð ritgerð minnir mig.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég var alltaf nátthrafn en svo eignaðist ég morgunhana fyrir kærasta. Nú fer ég helst snemma að sofa og sef út þannig að ég er kannski nátthani bara?
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er allt fallegast uppá Heklubæjum, en Veiðivötn eru paradís.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Óréttlæti og mannvonska. Og nöldur (nema auðvitað mitt eigið).
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég er nú með nokkuð góðan kjánahrollsþröskuld. Bæði Geir og Rökkvi Hljómur myndu sennilega svara þessari betur. Ég man samt eitt. Í svona öðrum bekk áttum við að hoppa yfir hest í leikfimi í gamla salnum í Hellubíói. Það hafði mér aldrei tekist, ég var fremur stirðbusalegur krakki. Í þetta sinn flaug ég hins vegar eins og Rúnar okkar Alexandersson yfir kvikindið. Í sigurvímu (sjáið fyrir ykkur vel girtan krakka, með gleraugu, skakkar tennur og afar veglegt enni) hugðist ég hlaupa aftur á minn stað aftast í röðinni. Ég hljóp hins vegar beint á jafnvægisslá, og lenti undir henni, og sat þar föst eins og skjaldbaka á skelinni. Kannski var grunnskólaganga mín bara öll eitt stórt neyðarlegt atvik?
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ballettdansari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hér gæti ég lagt í rækilega upptalningu á vinum og ættingjum, en ég er að hugsa um að segja Kolbrá Edda bróðurdóttir mín.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag, hver þá: Það væri freistandi að vera valdamikill stjórnmálamaður og gera eitthvað afdrifaríkt í loftslagsmálunum. En samt myndi ég bara vilja vera stjórnmálamaður í einn dag.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Sennilega Facebook, en ég reyni að nota þá sem minnst…
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég banna einkaþotur og skemmtiferðaskip.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég veit það ekki, en það kemur þeim sjálfsagt ekki við.
Mesta afrek í lífinu: Ætli það sé ekki norðurferðin síðasta haust?
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég væri til í að fara aftur um svona 15 ár og hafa systkini hennar mömmu öll saman aftur, með gítarinn og klámvísurnar og hláturinn.
Lífsmottó: Beygðu ekki af, brostu og bíddu. – Á hverfanda hveli.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Var þetta ekki komið fram með sauðburðinn?


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinTveir lentu undir rútunni
Næsta greinGunnar fræðir gesti um særingar gegn gigt