Selfyssingurinn Einar Bárðarson átti tuttugu ára höfundarafmæli á síðasta ári en þá voru tveir áratugir síðan lagið Farin kom út með hljómsveitinni Skítamóral. Á morgun, föstudag kemur í verslanir hljómplatan Myndir en á henni eru upptökur af vinsælustu lögum Einars. Einar ætlar að fagna útgáfu plötunnar með sögustund og „singalong“ tónleikum ásamt fríðu föruneyti í Hvítahúsinu á Selfossi föstudagskvöldið 8. febrúar og í Bæjarbíói í Hafnarfirði laugardagskvöldið 9. febrúar.

Fullt nafn: Einar Þór Bárðarson.
Fæðingardagur, ár og staður: Fæddist í Reykjavík 18. mars 1972 en ólst upp frá blautu beikoni á Selfossi.
Fjölskylduhagir: Giftur Áslaugu Thelmu Einarsdóttur og við eigum tvo börn saman, Klöru 12 ára og Einar Birgi 10 ára.
Menntun: Ég er með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, en er ennþá að læra eitthvað alla daga.
Atvinna: Já takk.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég er mjög upphrifin af bókinni Á eigin skinni eftir Sölva Tryggvason. Hún er góð, gagnleg og auðlesin. Ég les mér mest til gagns en minna til skemmtunar þannig að bókalistar mínir eru yfirleit óspennandi þannig.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Það eru nokkrir sem ég ber mig eftir þessa daganna. House of Cards, Vikings, Game of Thrones, Bodyguard, Ray Donovan, Ballers og eitthvað fleira. Pólítik og spenna í hæfilegu jafnvægi er skemmtilegt. Svo horfi ég á einhverja íslenska þætti líka en ekki af áfergju meira til afþreyingar.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Eina myndin í heiminum sem hæf er til sí-horfs er Með allt á hreinu.
Te eða kaffi: Kaffi.
Uppáhalds árstími: Haustið er fallegasti árstíminn finnst mér en ég er ekki mjög upptekin af tíma í umhverfi, meira bara hvað ég hef fyrir stafni.
Besta líkamsræktin: Vatn, frískt loft, djúpur andardráttur, gleði og góður félagsskapur. Annars er ég mest í jóga og hjólreiðum. Það hentar mér ágætlega.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Ég er svolítið öflugur þegar kemur að lambalæri úr Þjóðólfshaga sem ég smelli yfirleitt inn um klukkan 10 á sunnudagsmorgni og svo rennur það af beinunum, beint ofan í þar til gerða bernaise sundlaug, með kartöflum af sama bæ, tómötum frá Friðheimum og gúrkum frá Gufuhlíð, skorið saman við feta eða mozzarella ost úr mjólkurbúinu á Selfossi. Þá segir fólk bara … af hverju ertu ekki með matreiðsluþátt Einar Bárðarson???
Við hvað ertu hræddur: Þann sem skaffar okkur tímann á jörðinni og kannski sjálfan mig stundum, annað ekki.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Það er svona frá 6 til 7 á morgnana, eftir því hvernig ég er stemmdur, en aldrei fyrr en seinna.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sest fyrir framan græjurnar mínar á sunnudagsmorgni með kaffi og hlusta á góða tónlist áður en aðrir vakna.
Hvað finnst þér vanmetið: Það sem fólk á. Fólk er upptekið af því sem það á ekki en gleymir því sem það á.
En ofmetið: Ég er nú svolítið að svara því hér að ofan, keppnin að ná, eignast eða komast eitthvað þar sem það á ekki eða er ekki í augnablikinu. Vera glaður með það sem maður er og á, það er svo mikið frelsi sem fylgir því.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Það fer alveg eftir því í hvaða stuð ég vil komast.
Besta lyktin: Í gróðurhúsunum á Espiflöt.
Bað eða sturta: Sturta er nú meira mín megin.
Leiðinlegasta húsverkið: Ekkert af þessum hefðbundnu störfum fer í taugarnar á mér en að hreinsa niðurföll, þakrennur og vatnlása er ekki þættir lífsins sem draga mig fram á morgnana, ég viðurkenni það alveg.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Í einhverri 4. bekkjar bókinni skrifaði einhver „lifðu í lukku en ekki í krukku“. Það er alltaf að koma betur og betur í ljós hvað það er mögnuð ráðgjöf.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunmaður, alltaf verið.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Svæðið í kringum konuna mína, það er fátt sem toppar útsýnið þaðan.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Hroki og dónaskapur.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ætli það hafi verið að lenda í síðasta sæti í Eurovision í Kaupmannahöfn árið 2001. Sá það ekki fyrir, verð ég að segja.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég hafði aldrei neina hugmynd um það. Það var aldrei neitt eitt sem heillaði mig þannig að ég gæti einbeitt mér að svo einsleitri framtíð.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hann heitir Hilmar Hólmgeirsson.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag: Það heillar mig nú ekkert sérstaklega, ég er fínn í mínu skinni.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook myndi ég segja.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Hætta olíuframleiðslu, banna plastframleiðslu og festa yoga og íhugun inn í allt skólastarf frá leikskóla og út grunnskóla.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Það er líklega það að ég er ekki eins grannur og ég lít út fyrir að vera.
Mesta afrek í lífinu: Að hafa náð að giftast konunni minni og eignast þessi fallegu, vel meinandi börn. Það er nú það sem stendur uppúr.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ætli ég færi ekki svona 20 ár fram í tímann og sæi hvernig ættingjar og vinir hefðu það og hvað þeir ættu að forðast ef eitthvað væri á þessu tímabili. Fara yfir helstu lottotölur áranna þarna á milli og helstu slys og hamfarir. Læsi mér til í helstu fræðigreinum læknavísindanna til þess að flýta framförum á því sviði og færi svo tilbaka með þessar upplýsingar og haga seglum eftir þeim upplýsingum, þannig að familían og vinir væru sæmilega vel undirbúin fyrir næstu ár og hægt væri að afstýra helstu áföllum lands og lýðs. Annað eða meira væri bara græðgi held ég.
Lífsmottó: Njóta ferðarinnar og reyna að láta gott af sér leiða í þeim skömmtum sem maður ræður við.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Gefa út plötu og halda útgáfutónleika hérna heima í Hvítahúsinu og skemmta mér, vinum mínum og góðum gestum.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinSvekkjandi tap eftir svakalegan endasprett
Næsta greinLeitað að konu í Skaftafelli