Bergþóra Snæbjörnsdóttir, rithöfundur, sendi frá sér sína fyrstu skáldsögu fyrir þessi jól. Bókin heitir Svínshöfuð og er óhætt að segja að hún hafi fengið frábærar viðtökur. Svínshöfuð er tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna í flokki fagurbókmennta og þá hlaut Bergþóra bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana á dögunum í flokki íslenskra skáldverka. Hún hefur verið á ferð og flugi að kynna bókina síðustu vikur og les meðal annars upp á Bókakaffinu á Selfossi í kvöld, fimmtudagskvöld.

Fullt nafn: Bergþóra Snæbjörnsdóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: 16. janúar 1985. Er fædd á Fæðingarheimilinu í Reykjavík sem var og hét en uppalin á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Fjölskylduhagir: Meðlimur í vísitölufjölskyldu.
Menntun: BS í Sálfræði, BA í Ritlist og MA í Hagnýtri Menningarmiðlun. Ég reyndi að vera sem mest á námslánum til að geta skrifað, sé ekki eftir því nema þegar ég fæ yfirlit yfir skuldir mínar frá LÍN.
Atvinna: Rithöfundur.
Besta bók sem þú hefur lesið: Þær eru svo margar sem hafa haft svo mikil áhrif. En ég verð að nefna skáldsöguna Austur eftir Braga Pál Sigurðarson. Hún var að koma út núna fyrir jólin og fæst í öllum helstu búðum. Já, hann er sambýlismaður minn.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: RuPaul’s Drag Race.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: The Neverending Story.
Te eða kaffi: Kaffi, allan daginn.
Uppáhalds árstími: Haustin eru eitthvað svo mikið upphaf – ég kann að meta rútínuna og þykku peysurnar.
Besta líkamsræktin: Útihlaup, eitthvað við súrefnið og örvæntinguna sem hentar masókistanum í mér.
Hvaða rétt ertu best að elda: Allskonar grænmetisrétti, ég elska að elda og hef ekki borðað kjöt í meira en tíu ár.
Við hvað ertu hrædd: Við hvað ertu ekki hrædd?, væri líklega betri spurning. Þegar ég sit í bíl er ég hrædd við að lenda í árekstri, ég er hrædd í háum rúllustigum, hrædd við að einhver kafni á vínberi, hrædd við loftslagsbreytingar, hrædd um börnin mín, hrædd við að lenda í útistöðum við fólk – listinn heldur endalaust áfram.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Núna er ég í fæðingarorlofi og sef yfirleitt til svona 10:00, eftir erfiðar nætur. Alla jafna vakna ég svona 8:00 á morgnana og finnst það of snemmt.
Hvað gerir þú til að slaka á: Heitt vatn róar mig, bað eða sundferðir.
Hvað finnst þér vanmetið: Raunveruleikasjónvarp er það besta sem hefur gerst fyrir dægurmenningu – þeim mun verra þeim mun betra.
En ofmetið: Mr. Bean.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Wordy Rappinghood með Tom Tom Club.
Besta lyktin: Af hvítvoðungum.
Bað eða sturta: Sjóðandi heitt bað með kaffibolla.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þvo baðkarið.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Allt sem þú vökvar, vex.
Nátthrafn eða morgunhani: Mitt á milli – vil helst vaka til svona miðnættis, 1:00 á nóttunni, og vakna svo aftur um 9:00.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Þeir eru svo margir og fegurðin er oft tengd minningunum og félagsskapnum. En það er mjög eftirminnilegt að keyra inn í Utah frá Colorado, eldrauða eyðimörk og sandsteinsfjöll.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Múgæsingur á internetinu – þegar fólk notar internetið sem vettvang fyrir hreint og klárt einelti og ofbeldi.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég drakk mjög illa þar til ég hætti því alveg þegar ég var 26 ára gömul – allt sem gerðist fram að því var mjög neyðarlegt.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Innst inni langaði mig alltaf til að verða rithöfundur en mér fannst það einhvernveginn ekki raunhæfur möguleiki. Um daginn rakst ég á gamalt skólaverkefni síðan í fjórða bekk þar sem við áttum að skrifa litla sögu um hver við værum þegar við værum orðin fertug. Samkvæmt því ætlaði ég mér að verða einstæð móðir.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Bragi Páll, maðurinn minn.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Donald Trump svo ég gæti sagt af mér.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook en ætla að taka mér pásu eftir að jólabókaflóðinu lýkur.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Myndi ég gera Grétu Thunberg að alvaldi í stað stórfyrirtækja.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég er með fjóra nýrnaleiðara í stað tveggja.
Mesta afrek í lífinu: Að fæða börnin mín og að gefast ekki upp á harkinu og ritstörfunum.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég er of forvitin til að fara ekki fram í tímann.
Lífsmottó: Ég á engin mottó, það er kannski einhverskonar mottó.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Ég er búin að vera á flakki til að fylgja eftir bókinni minni en næstu helgi ætla ég að eyða með fjölskyldunni. Við ætlum loksins að gefa tíu vikna syni okkar nafn og halda af því tilefni litla veislu á laugardaginn.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri grein„Fékk þessar hendur og þennan huga og nota þessi verkfæri bara svona“ 
Næsta greinAnnasöm vika í sjúkraflutningunum