Sigursveinn Sigurðsson hefur verið ráðinn í stöðu aðstoðarskólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands frá og með 1. ágúst næstkomandi. Sigursveinn hefur starfað við FSu frá árinu 2006 og hefur kennt spænsku og ergó auk þess sem hann hefur verið sviðsstjóri frá árinu 2014. Hann starfaði sem skólameistari í afleysingum skólaárið 2018-2019.

Fullt nafn: Sigursveinn Már Sigurðsson.
Fæðingardagur, ár og staður: 15. febrúar 1980 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Giftur Þórunni Sif Ólafsdóttur, við eigum þrjú börn, Sigurð Loga 14 ára, Sóleyju Margréti 8 ára, Ólavíu Rakel 2 ára.
Menntun: Stúdentspróf á málabraut frá FSu, BA í spænsku, kennsluréttindi og nám í opinberri stjórnsýslu við HÍ og M.Ed. frá St. Francis Xavier háskólanum í Kanada.
Atvinna: Framhaldsskólakennari og sviðsstjóri í FSu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Sú bók sem ég hef lesið oftast er 60 ára saga HM í knattspyrnu eftir Sigmund Ó. Steinarsson en eftirminnilegasta bók sem ég hef lesið er sennilega 100 ára einsemd eftir Gabriel García Márquez. Hlaupabókin eftir Arnar Pétursson er líka í miklu uppáhaldi.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Seinfeld og Wire eru sígildir. Núna er það The Last Dance.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Flestar myndir Martin Scorsese og Alfred Hitchcock. Og Home Alone myndirnar með krökkunum um jólin.
Te eða kaffi: Gott kaffi.
Uppáhalds árstími: Íslenska sumarið.
Besta líkamsræktin: Hlaup.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Pabbaborgara.
Við hvað ertu hræddur: Að sofa yfir mig.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Oftast um sjöleytið en annars fer það líka eftir börnunum.
Hvað gerir þú til að slaka á: Fer út að hlaupa.
Hvað finnst þér vanmetið: Selfoss.
En ofmetið: Enski boltinn.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Til dæmis Ice Cream Man með Tom Waits.
Besta lyktin: Af nýslegnu grasi og glóðarsteiktri nautasteik.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þrífa baðherbergið.
Nátthrafn eða morgunhani: Morgunhani.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Chamonix-Mont-Blanc í frönsku ölpunum og Lago de Atitlán í Guatemala.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Tillitsleysi.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Atvinnumaður í NBA deildinni í körfubolta.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ólavía Rakel, dóttir mín.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Það gæti verið gaman að sjá heiminn með augum yngri dóttur minnar.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Twitter, en skrifa reyndar aldrei neitt þar sjálfur. Kann lítið á Instagram og enn minna á Snapchat.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Ég get ekki lengur skutlað mér til vinstri í marki.
Mesta afrek í lífinu: Fyrir utan fjölskylduna er það sennilega að hafa klárað tvö maraþon.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Það væri þá kannski helst að ferðast fram um 100 ár og hitta afkomendur mína.
Lífsmottó: Að koma fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Jóhann bróðir ætlar að bjóða mér í heimabakaða pizzu, erum búin að bíða eftir þessu síðan fyrir samkomubann.


Sendu okkur tilnefningu um Sunnlending vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinEndurskoðun garðyrkjusamnings lokið
Næsta greinArilíus Óskars í Stokkseyri