Bjarki Eiríksson er maðurinn á bak við sólstöðuhátíðina Árbakkinn sem verður haldin í fyrsta sinn í Nesi á Hellu á morgun. Hugmyndin að hátíðinni kviknaði í febrúar þegar Bjarki var að keyra framhjá útivistarsvæðinu og hugsaði með sér að væri gaman að halda tónleika að sumri til á þessum stað. Með hjálp góðra manna, fyrirtækja og stofnana varð hugmyndin að veruleika en á hátíðinni mun tónlistarfólk víðsvegar úr Rangárvallasýslu koma fram. Bjarki er uppalinn á Flúðum en býr nú á Hellu ásamt fjölskyldu sinni.
Fullt nafn: Bjarki Eiríksson.
Fæðingardagur, ár og staður: 11. apríl á því herrans ári 1984 í Reykjavík en er alinn upp á Flúðum.
Fjölskylduhagir: Ég giftur Dögg Þrastardóttur og saman eigum við þrjá drengi; Þröst Frey, Gústaf Þey og Hlyn Erik og við búum á Hellu.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Olga Guðmundsdóttir og Eiríkur Ágústsson, garðyrkjubændur í Silfurtúni á Flúðum.
Menntun: Stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni, raunfærnimat í framreiðslu og legg nú stund á Miðlun og almannatengsl við Háskólann á Bifröst.
Atvinna: Ég er nýhættur störfum sem framkvæmdastjóri Umf. Heklu og þá vinn ég líka sem stuðningsfulltrúi í Grunnskólanum á Hellu.
Besta bók sem þú hefur lesið: Skræpótti fuglinn eftir Jerzy Kosinski er með þeim bestu sem ég hef lesið. Svo er fátt sem slær Hringadróttinssögu þríleiknum við.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Ég er agalega mikill sjónvarpsþátta- og bíómyndakall og á erfitt með að gera upp við mig hvað er uppáhalds en af nýlegu efni verð ég að minnast á MobLand. Það er gæðaefni.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ég hef horft á Shawshank Redemption oftar en ég kæri mig um að viðurkenna.
Te eða kaffi: Kolsvart kaffi er minn lífselixír.
Uppáhalds árstími: Það er fegurð í öllum árstíðunum en það er eitthvað sem mér finnst notalegt við haustið.
Besta líkamsræktin: Að lyfta lóðum.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Eftir rúma tvo áratugi viðloðandi veitingageirann þá er ég ansi lunkinn kokkur en ætli ég verði ekki að nefna ungversku gúllassúpuna mína.
Við hvað ertu hræddur: Fasisma.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Venjulega um sjöleytið til að koma börnum út í daginn.
Hvað gerir þú til að slaka á: Sinni áhugamálunum mínum; spila á gítarinn og syng, fer út að veiða eða dunda mér við gítarsmíði.
Hvað finnst þér vanmetið: Frjálslyndi.
En ofmetið: Morgunblaðið.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Even Flow með Pearl Jam.
Besta lyktin: Af birkiskógi í sólskini eftir rigningarnótt.
Bað eða sturta: Sturta. Alltaf sturta!
Leiðinlegasta húsverkið: Að para saman sokka fær mig til að missa lífsviljann og eitthvað deyr innan í mér við þá iðju.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Albesta ráð sem mér hefur verið gefið er að leyfa ekki fólki sem mér líkar ekki við að búa leigufrítt í kollinum á mér.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég hef alla tíð verið nátthrafn og ég þarf að sinna honum af og til eftir að ég tileinkaði mér meira A-týpu lífstílinn.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Mér finnst ég upplifa nýja vídd í Ásbyrgi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Þegar fólk getur ekki sæst á að vera ósammála um hlutina.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég man bara ekki eftir neinu í augnablikinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Lengi vel langaði mig til að verða sjúkraþjálfari.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Hildur Magnúsdóttir, leikkona, partýstýra og bekkjarsystir mín frá ML. Það er ómögulegt að vera nálægt henni án þess að detta í hláturskast.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég er mjög ánægður með að vera ég og myndi ekki skipta á því við neinn.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook og Instagram.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég leiðrétta það sem hefur aflaga farið í heiminum… og banna ananas á pizzur!
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að þrátt fyrir hörkulegt rokkhundsútlit er ég mikill Swiftie.
Mesta afrek í lífinu: Strákarnir mínir eru mitt mesta afrek í lífinu.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég færi til Bandaríkjanna árið 1991 og baðaði mig í rokk-, grunge- og metal tónlistinni sem kom út það ár.
Lífsmottó: Ég reyni eftir fremsta megni að vera góð manneskja og forðast að dæma annað fólk.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að halda upp á sumarsólstöður með því að koma fram, ásamt hópi af frábæru tónlistarfólki frá Hellu, Hvolsvelli og nágrenni, á Árbakkanum – Sólstöðuhátíð í Nesi á Hellu þar sem við ætlum að flytja léttleikandi popp- og rokktónlist í órafmögnuðum stíl.
Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is