Á nýársdag var Reynir Pétur Steinunnarson á Sólheimum í Grímsnesi sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir afrek sín og framgöngu í þágu fatlaðra. Reynir Pétur er þekktastur fyrir göngu sína umhverfis Ísland árið 1985 þar sem hann safnaði áheitum sem nýtt voru til smíði íþróttaleikhúss á Sólheimum. Um leið vakti Reynir Pétur athygli á málstað fólks með fötlun og þroskaskerðingar. Reynir Pétur er Sunnlendingur vikunnar.

Fullt nafn: Reynir Pétur Steinunnarson.
Fæðingardagur, ár og staður: 2510 1948 á Landspítalanum.
Fjölskylduhagir: Bý einn.
Hverra manna ertu: Faðir minn, sem ég hef aldrei séð, hét Ingvar Ólafsson. Móðir mín hét Steinunn Loftsdóttir. Stjúpi minn, Matthías Gunnlaugsson, horfði á mig sem sinn son. Blessuð sé minning þeirra.
Menntun: Það voru kennarar á Sólheimum, misgóðir, en árið 1965 kemur Ingimundur Stefánsson sem var aðal maðurinn í skólakennslu. Hann kenndi mér aðallega stafsetningu, skrift og reikning en mest hef ég lært þó í skóla lífsins.
Atvinna: Garðyrkjubóndi, eins og forseti Íslands segir. Ég hef líka unnið við byggingarvinnu, smíðavinnu, heyskap og búskap en í garðyrkjunni festist ég árið 1966.
Besta bók sem þú hefur lesið: Selurinn Snorri er flott bók.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Stiklur með Ómari Ragnarssyni og Út og suður með Gísla Einars.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Engin sérstök, en myndir sem fjalla alheiminn og stjörnur t.d tækni og vísindi eru í uppáhaldi.
Te eða kaffi: Yfirleitt kaffi en te í hádeginu.
Uppáhalds árstími: Vorið.
Besta líkamsræktin: Að ganga og hjóla.
Hvaða rétt ertu bestur að elda: Kakósúpu eða bláberjasúpur, það er algjört nammi sko með rjóma og ekki þunnar heldur matarmiklar.
Við hvað ertu hræddur: Þegar of margir eru í stórum sundlaugum.
Klukkan hvað ferðu á fætur: 07:30.
Hvað gerir þú til að slaka á: Hlusta á og spila tónlist, vinn með myndir, safna gömlum myndum, hjóla og hugsa um tölur og stærðfræði.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ein bisschen Frieden með Nicole, sem sigraði í Eurovision árið 1982.
Besta lyktin: Hangiketslykt.
Bað eða sturta: Sturta.
Leiðinlegasta húsverkið: Að þrífa klósett.
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Besta ráð sem ég hef samþykkt var að fara í Íslandsgönguna.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er morgunhani frekar en hæna.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Vík í Mýrdal og Svartiskógur í Þýskalandi.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Að það eru endalaust ljótar og leiðinlegar fréttir í sjónvarpinu. Hvar eru góðu fréttirnar, eins og af tækninýjungum í læknavísindum fyrir alla sem þurfa og eru að bíða eftir þeim?
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Að brjóta óvart stofn af tómatplöntu, sem er afar neyðarlegt í garðyrkjuhúsinu.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Prófessor, vegna þess að ég hafði mikinn áhuga á stærðfræði.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ómar Ragnarsson, sem lék jólasvein og braust inn um gluggann í gamla bragganum sem hét Freyjulundur á Sólheimum.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Albert Einstein og sjá hvort hann sé jafningi minn. Grín!
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Facebook.
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Þá myndi ég stoppa öll stríð og misnotkun.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Að það frusu á mér fingurnir eftir göngutúr þegar ég var ungur drengur. Ég var að borða snjó og tók blautu vettlingana af mér.
Mesta afrek í lífinu: Íslandsgangan árið 1985.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ég myndi vilja fara á þann stað sem ég var á áður en ég veiktist af heilahimnubólgu. Ef ég færi til framtíðarinnar þá myndi ég vilja sjá jörðina hreina án ofbeldis.
Lífsmottó: Þrátt fyrir bylgjur, skin og skúrir, þá er gleði og bros það sem smitar til þess sem á mig horfir.
Hvað ætlar þú að gera um helgina: Ég ætla að fara út að hjóla ef veðrið verður
gott eða heimsækja Hanný Maríu Haraldsdóttur í Steinahlíð og Ragnheiði með harmonikkuna þar sem Hanný syngur Dinke Danke.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÞrír Sunnlendingar á Wodapalooza
Næsta greinHlaupórói eykst jafnt og þétt