Selfyssingurinn Sif Sumarliðadóttir hefur heldur betur látið til sín taka í utanvegahlaupum síðustu misserin. Saga Sifjar er mögnuð en hún var antisportisti lengi vel, hún missti þriðjung úr lunga en lét ekkert stoppa sig og hefur verið í landsliðinu í bakgarðshlaupum. Á dögunum tók hún þátt í CCC, 100 km hlaupi rúmlega hálfan hringinn í kringum Mont Blanc, og varð í þriðja sæti í sínum aldursflokki.

Fullt nafn: Sif Sumarliðadóttir.
Fæðingardagur, ár og staður: Ég fæddist 24.febrúar 1975 í Reykjavík.
Fjölskylduhagir: Ég er gift Kristni Jóni Arnarsyni, eða Kidda og eigum við tvö born, Sölku sem er 20 ára og Grím sem er 17 ára.
Hverra manna ertu: Foreldrar mínir eru Selfyssingarnir Margrét Sigursteinsdóttir, eða Magga og Sumarliði Guðbjartsson, sem flestir þekkja sem Dengsa.
Menntun: Ég er menntaður hjúkrunarfræðingur og vann sem slíkur í 10 ár en fór síðan í meistaranám í heilsuhagfræði.
Atvinna: Ég vinn á hagdeild Landspítalans.
Besta bók sem þú hefur lesið: Ég held mikið upp á Jón Kalman og nefni því Himnaríki og helvíti. Einnig finnst mér nauðsynlegt að nefna What I talk About When I talk About Running, með Haruki Murakami.
Uppáhalds sjónvarpsþáttur: Friends eru klassískir þættir sem hægt er að horfa aftur og aftur á.
Hvaða bíómynd getur þú horft á aftur og aftur: Ein af fáum bíómyndum sem ég horfi á aftur er Pulp Fiction.
Te eða kaffi: Ég er klárlega kaffimanneskja og elska ekkert meira en espresso í morgunsárið en ég drekk einnig English Breakfast-te með mjólk á hverjum degi.
Uppáhalds árstími: Ég verð að segja að sumarið er uppáhalds árstíminn.
Besta líkamsræktin: Hlaupin eru besta líkamsræktin fyrir líkama og sál en það er einnig nauðsynlegt að stunda styrktarþjálfun, svo ég nefni lyftingar líka.
Hvaða rétt ertu best að elda: Ég elska indverskan mat og allan austurlenskan mat og tel mig vera nokkuð góða í að brasa rétti í þá áttina.
Við hvað ertu hrædd: Mér líður verst úti á sjó, mín mesta martröð væri að vera á sjókajak. Mér líður heldur ekki vel í mjög miklum hliðarbratta, svo þetta tvennt helst.
Klukkan hvað ferðu á fætur: Ég fer á fætur um klukkan 6 á morgnana. Annaðhvort fer ég í létt hlaup eða geri morgunrútínu sem felst meðal annars í að rúlla vöðvana og gera hreyfiteygjur.
Hvað gerir þú til að slaka á: Mín slökun er aðallega að leggjast upp í sofa og horfa á eitthvað.
Hvað finnst þér vanmetið: Núna er meiri vitundarvakning um mikilvægi svefns en ég tel það vera vanmetið hversu nauðsynlegt það er að ná góðum svefni, bæði upp á endurheimt og almenna heilsu.
En ofmetið: Mér finnst vera ofmetið að við þurfum alltaf að eiga það nýjasta af öllu.
Hvaða lag kemur þér alltaf í stuð: Ætli það væri ekki gamla góða Party girl með U2.
Besta lyktin: Ég er mjög hrifin af vanilla- og kókosilmum og einnig muskuðum ilmum.
Bað eða sturta: Ég vel nú alltaf sturtuna en það getur verið huggulegt að skella sér í bað eftir langa æfingu, sérstaklega á veturna.
Leiðinlegasta húsverkið: Mér finnst allra leiðinlegast að þurrka af
Besta ráð sem þér hefur verið gefið: Amma sagði alltaf við mig „þú ert bara ung einu sinni“ þegar hún var að hvetja mann til að gera eitthvað og ég hef það klárlega alltaf í huga.
Nátthrafn eða morgunhani: Ég er endurfæddist sem morgunhani eftir að ég átti krakkana mína.
Fallegasti staður sem þú hefur komið á: Það er mjög erfitt að nefna einn stað en Þórsmörk á alltaf stað í hjartanu á mér. Einnig er stórbrotið að vera uppi í Val Ferret-dalnum og horfa á Mont Blanc fjallgarðinn.
Hvað fer mest í taugarnar á þér: Allt slór fer frekar mikið í taugarnar á mér.
Neyðarlegasta atvik sem þú hefur lent í: Ég hitti Kevin Bacon nokkrum sinnum í gegnum vinkonu okkar Kidda úti í New York, þegar við bjuggum þar. Í eitt af þessum skiptum þá sagði hann kurteisislega „nice to see you“. Ég varð svo vandræðaleg að í stað þess að svara á sömu nótum til baka eins og maður gerir, þá sagði ég bara „thank you“. Mér finnst þetta enn mjög vandræðalegt þegar ég hugsa til þess.
Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór: Ég ætlaði mér alltaf að verða hjúkrunarfræðingur.
Fyndnasta manneskja þú veist um: Ég þekki nú margar skondnar persónur en get ómögulega gert upp á milli þeirra.
Ef þú fengir að vera einhver annar í einn dag hver þá: Ég væri til í að vera Courtney Dauwalter í einn dag til að upplifa hvernig það er að hlaupa svona ótrúlega hratt um fjöllin.
Hvaða samfélagsmiðil notar þú mest: Instagram er sá samfélagsmiðill sem ég nota helst..
Ef þú værir alvaldur í einn dag: Ef ég gæti stöðvað þau stríð sem eru í gangi í heiminum í dag þá myndi ég nota valdið mitt í það.
Eitthvað sem fæstir vita um þig: Á mínum yngri árum hataði ég að hlaupa og fannst það leiðinlegasta þegar ég var látin fara í Grýlupottahlaupið með Júlíu vinkonu minni.
Mesta afrek í lífinu: Mesta afrekið er að hafa eignast börnin mín og fjölskyldu, það er það sem ég er stoltust yfir.
Ef þú mættir ferðast fram eða aftur í tímann, hvert myndir þú þá fara: Ef ég gæti ferðast aftur í tímann myndi ég fara aftur til London þar sem við bjuggum.
Lífsmottó: Mitt lífsmottó er að njóta stundarinnar eins mikið og hægt er og kýla á þá hluti sem mig langar til að gera.
Hvað ætlar þú að gera um næstu helgi: Um næstu helgi ætla ég að vera með manninum mínum í Stresa á Ítalíu áður en ég hitti æsku vinkonur mínar í 800 klúbbnum við Como vatnið, en við verðum þar í fimmtugsafmælisferð.


Sendu okkur tilnefningu að Sunnlendingi vikunnar á netfrett@sunnlenska.is

Fyrri greinÁrborg óskar eftir samtali við Flóahrepp
Næsta greinFór nokkrar veltur í Kömbunum