Síðasti spretturinn

Blóm, blöðrur, birki og bros. Frambjóðendur beita öllum brögðum á lokaspretti stuttrar kosningabaráttu.

Sunnlenska.is var á ferðinni í nokkrum þéttbýlisstöðum í dag og heyrði hljóðið bæði í frambjóðendum og kjósendum.

Á Hvolsvelli var hugur í Ísólfi Gylfa og öðrum framsóknarmönnum á kosningaskrifstofunni í Kristjánsborgarhöll. Á meðan var Elvar Eyvindsson, sveitarstjóri og oddviti sjálfstæðismanna, í vinnunni þar sem hann ræddi rýmingaráætlun vegna eldgosanna við breskan vísindamann. Það var hins vegar harðlæst á kosningaskrifstofu Vinstri-grænna en þar ætla menn að skemmta sér í kvöld og verður meðal annars boðið upp á lifandi tónlist. Það er útlit fyrir spennandi kosningar í Rangárþingi eystra, margir eru ánægðir með endurkomu Ísólfs Gylfa en Vinstri-grænir eru óútreiknanleg stærð og gætu sett strik í hreina meirihluta hinna framboðanna.

Anna á Helluvaði var með kústinn á lofti á kosningaskrifstofu Sjálfstæðisflokksins á Hellu en efstu menn listans voru í bæjarheimsóknum í dreifbýli þessa landrúma sveitarfélags. Sömu sögu var að segja af frambjóðendum Á-listans sem heimsóttu íbúana og færðu þeim gular stjúpur. Guðfinna Þorvaldsdóttir færði blaðamanni eina og sagði útlit fyrir spennandi kosningar. Sömu sögu var að segja hjá þeim íbúum sem sunnlenska.is ræddi við. Menn voru sammála um að kosningarnar í Rangárþingi ytra yrðu spennandi.

Það var mikið um að vera í Árborg þar sem frambjóðendur Samfylkingarinnar dreifðu birkiplöntum í anddyri Kjarnans á Selfossi. Nokkrum metrum frá þeim stóðu frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins og dreifðu bláum stjúpum og röbbuðu við kjósendur. Frambjóðendur Vinstri grænna tóku því rólega á kosningaskrifstofunni og var virkilega létt yfir mönnum á þeim bænum. Á meðan voru þrír efstu hjá Framsókn í vinnustaðaheimsóknum og dreifðu hinu sígilda Framsóknarkaffi á gangandi vegfarendur. Kosningarnar í Árborg verða spennandi en í óformlegri könnun á Suðurland FM nú síðdegis virtist meirihluti kjósenda eiga eftir að gera upp hug sinn.

Í Hveragerði stóð Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, fyrir utan kosningaskrifstofu andstæðinganna í Á-listanum sem tóku því létt og Halldóra Steindórsdóttir, Á-listakona, stillti sér upp á mynd með Aldísi. Þær eru báðar í fjórða sæti. Á meðan blés Njörður Sigurðsson í blöðrur á kosningaskrifstofu Á-listans. Mikill hugur er í báðum framboðum og rennerí var á kosningaskrifstofu beggja lista þegar sunnlenska.is mætti þar til að stilla frambjóðendum upp á mynd. Sjálfstæðismenn hafa verið í meirihluta í Hveragerði undanfarin fjögur ár og þeir íbúar sem sunnlenska.is ræddu við fyrir utan verslunarmiðstöðina Sunnumörk bjuggust flestir við því að meirihlutinn myndi halda.

Myndir af frambjóðendum á lokasprettinum má sjá í albúminu hér til hægri.

Attached files