Yfir beljandi fljót

Riðið yfir Brúará í Biskupstungum seint á 19. öld. (Sigfús Eymundsson / Þjóðminjasafn Íslands)

Opnuð hefur verið sýningin „Yfir beljandi fljót“ í borðstofu Hússins á Eyrarbakka. Sýningin fjallar um sögu fólks sem ferðaðist gangandi og ríðandi á tímum þegar ár og vötn klufu sveitir Árnessýslu.

Fólk ferðaðist um rótgrónar þjóðleiðir og fór yfir árnar í ferjum eða á vöðum. Oft þurfti að fara langa króka til að komast á milli staða þar sem ófært var yfir ár, vötn og mýrar. Að vetri var oft hægt að fara yfir á ís. Á sýningunni er varpað ljósi á ferðmáta fólks, ferðaútbúnað, skófatnað, reiðtygi og síðan en ekki síst sjá gestir sögubrot og sagnir sem tilheyrðu þessum tíma.

Margar frásagnir hverfast eðlilega um árnar í sýslunni sem voru miklir farartálmar eins og Ölfusá, Sogið, Brúará, Hvítá og Tungufljót og svo Þjórsá á sýslumörkum. Ljósmyndir sem prýða sýninguna eru nokkrar úr safneign en flestar eru fengnar úr öðrum söfnum enda mikið fágæti.

Á Hvítá við Hvítárvatn. (Hjalmar Fugelli / Þjóðminjasafn Íslands)

Rétt fyrir aldamótin 1900 voru stærstu árnar, Ölfusá og Þjórsá, brúaðar og var það bylting sem kollvarpaði samgönguháttum og til langs tíma olli breytingum á samfélaginu í takt við allar aðrar breytingar til nútímahátta. En eftir lifa margar ótrúlegar sögur af ferðalögum fólks sem barðist oft við óblíða náttúru og krefjandi aðstæður.

Sýningin og rannsókn á efninu var alfarið unnin af fagmenntuðu starfsfólki Byggðasafns Árnesinga. Verkefnið fékk styrk frá Safnaráði. Sýningin var opnuð 20. júní og stendur til septemberloka auk þess sem hún lifir næsta sumar í breyttri mynd. Byggðasafn Árnesinga er opið alla daga kl. 10-17 til septemberloka.

Eins og áður segir er grunnsýning Byggðasafns Árnesinga í Húsinu á Eyrarbakka, Kirkjubæ og Eggjaskúrnum og einnig Sjóminjasafninu á Eyrarbakka. Einnig er Rjómabúið á Baugsstöðum undir verndarvæng safnsins, sömuleiðis heldur safnið alþýðuhúsinu Eyri á Eyrarbakka opnu í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.

Fyrri greinStokkseyringar í hátíðarskapi
Næsta greinBanaslys í Öræfum