Vorfuglar í Eggjaskúrnum

Næstkomandi laugardag, þann 12. apríl kl. 14, opnar Hallur Karl Hinriksson sýningu á vorfuglum í Eggjaskúrnum á Eyrarbakka, í tilefni af vorkomunni og páskunum.

Eggjaskúrinn er hluti af Húsinu á Eyrarbakka og eru þar jafnan til sýnis fuglar og egg úr náttúru landsins.

Sýningin stendur yfir dagana 12.- 21. apríl og er opin milli klukkan 12 og 17.

Hallur Karl er 32 ára myndlistarmaður búsettur á Eyrarbakka. Hann mun sýna kolateikningar á sýningunni, en slíkt hefur hann ekki áður sýnt.

Aðspurður segir hann að kolateikningarnar fari jafnan undir olíulit þegar hann undirbýr málverk sín. Hann sjái alltaf nokkuð eftir kolateikningunum og fagni því tækifæri að sýna hreinræktaðar kolateikningar á pappír.

„Þetta eru áhyggjulausar stúdíur af fuglum, hröð teikning með kolamolum og puttum. 40.000 ára gömul aðferð hellarmálaranna, og svipað viðfangsefni. Myndlist af elstu gerð,“ segir Hallur Karl.

Hann er myndlistarmenntaður í Frakklandi og kom heim úr námi 2005. Síðan þá hefur hann sýnt reglulega, meðal annars á Eyrarbakka og í Gallerí Fold í Reykjavík. Hann hefur að langmestu leyti fengist við að mála abstraktmálverk en hefur líka gert stöku landslagsmynd. Í ár hefur hann hinsvegar fengist við stórar og litríkar dýra-og jurtamyndir með miklu rými fyrir túlkun áhorfandans.

Áhugasömum er bent á að skoða Facebooksíðu Halls Karls, en þar má fylgjast með nýjustu verkum málarans.

Húsið á Eyrarbakka var byggt árið 1765 og var lengstum kaupmannssetur en hýsir nú grunnsýningu Byggðasafns Árnesinga. Eggjaskúrinn er sérstök einnar hæðar skúrbygging norðan við Húsið sem er endurbygging samskonar húss sem stóð þar til 1926. Í upprunalega Eggjaskúrnum var aðstaða Peters Nielsens faktors til fuglarannsókna og varðveitti hann þar stórt og mikið safn af uppstoppuðum fuglum og útblásnum eggjum úr íslenskri náttúru. Þannig fékk byggingin þetta sérstaka nafn.

Eggjaskúrinn var endurbyggður árið 2004 og hýsir náttúrugripasýningu Byggðasafns Árnesinga. Um páskana verður jafnframt hægt að skoða Húsið á sama tíma og sýningu Halls Karls í Eggjaskúrnum.

Fyrri greinHeimsviðburður framundan á 800Bar
Næsta greinDagný og Guðmunda skoruðu í átta marka sigri