Vor í Árborg um helgina

Unglingakór Selfosskirkju syngur við opnun Vors í Árborg. Mynd úr safni. Ljósmynd/Árborg

Menningarhátíðin Vor í Árborg 2014 hefst í dag með göngu á Ingólfsfjall kl. 10 undir leiðsögn félaga í Björgunarfélagi Árborgar. Hátíðin stendur fram á sunnudag.

Hefðbundin skrúðganga á sumardaginn fyrsta fer af stað kl. 13 frá skátaheimilinu að Tryggvagötu 36. Skátafélagið Fossbúar og lúðrasveit Selfoss leiða gönguna af sinni alkunnu snilld. Að göngu lokinni er boðið til hátíðardagskrár við skátaheimilið en hægt er að sjá danssýningu, útieldun, fara í hoppukastala, poppa og kaupa kaffiveitingar af skátafélaginu. Hátíðarsetning Vors í Árborg fer fram á Hótel Selfoss kl. 17 en þar verður afhent menningarviðurkenning Árborgar 2014 auk þess sem barna- og unglingakór Selfosskirkju og Gísli Stefánsson syngja nokkur lög. Seinna þetta sama kvöld eru tónleikar með Karlakór Selfoss í Selfosskirkju. Tónleikarnir hefjast kl. 20:30.

Dagskrá Vors í Árborg er fjölbreytt líkt og áður en skoða má fjölda ljós- og málverkasýninga um allt sveitarfélagið. Í Menningarverstöðinni á Stokkseyri er Elfar Guðni með málverkasýningu og Valgerður dóttir hans sýnir mosaik verk í sama húsnæði. Á Eyrarbakka opnar myndlistamaðurinn Hallur Karl sýna vinnustofu í Litlu Háeyri á laugardeginum milli 13 og 18. Ljósmyndaklúbburinn Blik sýnir ljósmyndir á Hótel Selfossi sem og Davíð Art Sigurðsson sem sýnir málverk eftir sig og verk sem hafa verið unnin af börnum á Vori í Árborg sl. ár. Mjög skemmtileg sýning sem vert er að sjá.

Nemendur í Vallaskóla taka þátt í verkefninu „List í nærumhverfi“ og sýna afrakstur þess í skólanum á föstudeginum kl. 13-17 og laugardeginum kl. 11-15. Eldri borgarar á Selfossi opna handverkssýningu kl. 14 á föstudeginum og fá barna- og unglingakór Selfosskirkju til að syngja af því tilefni.

Af áhugaverðari viðburðum á vorinu má nefna salsadanskennslu í Tryggvaskála fös. 25.apríl kl. 20:30 og Sveitadaginn í gamla Sandvíkurhreppi á sunnudeginum milli 13 og 16. Hægt að sjá kýrnar í Geirakoti, kindurnar í Móskógum, hestana í Austurási og svo Jeppasmiðjuna á Ljónsstöðum. Sérstök opnun á sveitadeginum verður í Austurási við Votmúlaveginn kl. 13 en þar geta börnin farið á hestbak.

Fjöldi tónleika er í dagskrá hátíðarinnar og hefst veislan strax á fimmtudeginum með tónleikum Karlakórs Selfoss í Selfosskirkju kl. 20:30 og tónleikum Belleville í Tryggvaskála. Valdimar heldur tónleika á Frón á föstudeginum og Alexander Freyr spilar á 800 bar sama kvöld. Yngri kynslóðin fær möguleika á að sjá Pollapönk áður en þeir bregða sér til þátttöku í Eurovision en kapparnir spila á Frón kl. 14 á laugardeginum. 1000 kr. eru í aðgangseyrir en frítt er inn fyrir 3 ára og yngri.

Staður á Eyrarbakka er vel mettur laugardaginn 26. apríl kl. 16 en þá mæta Guðrún Gunnarsdóttir ásamt tríói, Karen Dröfn Hafþórsdóttir ásamt undirleikara og Valgeir Guðjónsson, Stuðmaður og Eyrbekkingur. Þau spila fyrir gesti en kynnir á tónleikunum er Jóhannes Erlingsson.

Dagskrá Vors í Árborg lýkur síðan í Hólmarastarsalnum á Stokkseyri á sunnudeginum kl. 16 en þá syngja Karlakór Hreppamanna lög til hafsins og sjómennskunnar, Kristjana Stefánsdóttir ásamt undirleikara nokkrar perlur eftir Pál Ísólfsson og ungu Stokkseyringarnir Sigurgrímur Vernharðsson á selló og Lísbet Dögg Guðnýjardóttir á blokkflautu spila. Guðbrandur Stígur Ágústsson sér um að kynna dagskránna.

Fyrri greinTuttugu verðlaun til skóla á sambandssvæði HSK
Næsta greinBjarni fjallar um Mörð og Njálu