Vor í Árborg hefst á sumardaginn fyrsta

Unglingakór Selfosskirkju syngur við opnun Vors í Árborg. Mynd úr safni. Ljósmynd/Árborg

Bæjar- og menningarhátíðin Vor í Árborg hefst á sumardaginn fyrsta með opnum fjölskyldutíma í íþróttahúsi Sunnulækjarskóla kl. 10:00 og í framhaldinu opnar hver viðburðurinn á fætur öðrum.

Á sumardaginn fyrsta verður meðal annars opið hús í leikhúsinu við Sigtún og Handverksskúrnum við Eyraveg. Bókasafnið á Selfossi verður opið frá 12-16 og kvenfélag Selfoss verður með opið hús í Selinu við Engjaveg.

Á Eyrarbakka verða útileikir kl. 14:00 við Húsið en þar er einnig sögusýningin „Litla Hraun“ og kl. 18:30 hefst Hópshlaupið frá Steinskoti á Eyrarbakka.

Á Stokkseyri er opið hús í Menningarverstöðinni, Hafnargötu 9, kl. 14:00 þar sem Elfar Guðni og Valgerður Þóra sýna í Svartakletti og Gallerý Gussi verður sömuleiðis opið frá kl. 14:00 að Strandgötu 10.

Skátafélagið Fossbúar stendur fyrir hátíðardagskrá í tilefni sumardagsins fyrsta sem hefst á skrúðgöngu kl. 13:00 frá Tryggvartorgi við Ölfusárbrú. Hátíðardagskrá verður síðan við skátaheimilið við Tryggvagötu þar sem í boði verður fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna fram eftir degi.

Opnunarhátíð Vors í Árborg verður síðan haldin í anddyri Hótels Selfoss kl. 17:00 þar sem unglingakór Selfosskirkju syngur, menningarviðurkenning Árborgar 2019 verður afhent, ljós- og málverkasýningar opnaðar ásamt söng frá Karítas Hörpu Davíðsdóttur.

Frítt er inn á viðburði á Vori í Árborg nema annað sé sérstaklega tekið fram í dagskrá hátíðarinnar.

Fyrri greinHveragerði aðili að Íslenska ferðaklasanum
Næsta greinGleðilegt sumar!