Vodkakúrinn frumsýndur í kvöld

Leikfélag Rangæinga frumsýnir í kvöld leikritið Vodkakúrinn eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttur í leikstjórn Ólafs Jens Sigurðssonar.

Leikritið fjallar um Eyju sem hefur lengi átt í baráttu við aukakílóin og er hún leikin af Þórunni Elfu Stefánsdóttur. Í Vodkakúrnum fylgjumst við með samskiptum hennar við ýmsar áhugaverðar persónur í lífi hennar eins og t.d. elskhugann, mjóu systurina, einkaþjálfarann og fleiri.

Um er að ræða gamanleikrit með örlítið alvarlegum undirtóni þar sem það er skoðun höfundar að megrunarkúrar virki ekki og séu frekar til að fita fólk en hitt.

Þetta leikrit var frumflutt árið 2004 og voru þá leikararnir aðeins tveir, Helga Braga Jónsdóttir og Steinn Ármann Magnússon og naut verkið gríðarlegra vinsælda.

Þetta er í fyrsta skipti sem verkið er sett upp af áhugamannaleikfélagi og ríkir spenna og eftirvænting í hópnum fyrir frumsýningunni.