Vindurinn blæs og báran vaggar

Elín Gunnlaugsdóttir og Pamela De Sensi. Ljósmynd/Aðsend

Á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, sunnudaginn 8. mars kl. 14, mun Pamela De Sensi, flautuleikari flytja þrjú flautuverk eftir Elínu Gunnlaugsdóttur, tónskáld í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Tónleikarnir eru í tengslum við sýninguna Tilvist og Thoreau sem nú stendur yfir í Listasafni Árnesinga. Verkin sem flutt verða bera heitin Kveðja, albúm og Púsl. Hið síðast talda eða Púsl fyrir kontrabassaflautu og lúppustöð er innblásið af skrifum Thoreau og má heyra í því vindinn blása og bárurnar vagga. Kveðja er einleiksverk fyrir alt flautu sem vísar í ljóð Jónasar Hallgrímssonar, „Ég bið að heilsa”. Báðir þessir menn, H. D. Thoreau og Jónas Hallgrímsson voru uppi á 19. öld, stunduðu ritstörf og voru náttúrufræðingar.

Tónefni albúms fyrir alt flautu og lúppu er hins vegar sótt í upphafsstafi allra í fjölskyldu Elínar og er leikið með efnið ýmsan hátt. Upphafsstafirnir eru umtúlkaðir yfir í nótur en einnig unnin úr þeim hrynmynstur sem eiga rætur í morskerfinu. Tónmyndirnar eru stundum draumkenndar og stundum ákafar og rythmískar. Lúppan myndar svo einskonar hringrás sem bindur þær saman.

Pamela De Sensi og Elín Gunnlaugsdóttir hafa unnið saman í meira en áratug. Hefur Elín samið fjögur einleiksverk fyrir hana en auk þess hafa þær unnið saman að ýmsum barnaverkum. Í febrúar síðastliðnum fóru þær á flautuhátíð í Washington þar sem Elín kynnti íslenska tónlist og Pamela lék verk eftir íslensk kventónskáld.

Elín mun kynna tónverkin og spjalla um tilurð þeirra. Aðgangur að safninu og viðburðinum er ókeypis.

Fyrri greinSamvera til styrktar Hlöðveri og fjölskyldu
Næsta greinHvergerðingar hlaðnir verðlaunum á Bessastöðum