Viltu teikna? – Guðrún Tryggvadóttir leiðbeinir

Laugardaginn 24. mars kl. 14-16 mun Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður leiðbeina gestum í teikningu á sýningunni Ásjóna í Listasafni Árnesinga.

Þar má skoða verk í eigu safnsins þar sem áherslan er lögð á portrett og teikningu.

Nálgun og hugsun myndlistarmannanna sem eru höfundar verkanna á sýningunni sem og stílar þeirra eru mismunandi, en verkin eru þarna til þess að njóta, hafa áhrif og vera kveikja nýrra hugmynda. Gestir kunnu vel að meta aðstoð Guðrúnar síðast, en þetta er í annað sinn sem hún leiðbeinir á sýningunni og kynnir aðferðir og verkfæri.

Guðrún nam myndlist við listaskóla á Íslandi, í Frakklandi og Þýskalandi. Hún hefur starfað sem myndlistarmaður og myndlistarkennari en hin síðari ár hefur hún einkum sinnt hönnun og umhverfismálum. Hún er stofnandi og framkvæmdastjóri vefsins, natturan.is

Verkin á sýningunni eru öll frá 20. öldinni, það elsta frá því um aldamótin 1900, Sjálfsmynd Ásgríms Jónssonar þar sem hann horfir rannsakandi fram í rýmið sem ungur listnemi í Kaupmannahöfn, en yngsta verkið á sýningunni er Höfuðfætlur eftur Magnús Kjartansson frá níunda áratugnum. Portrett af bændum í Grímsnesi eftir Baltasar eru þar líka auk verka eftir Kjarval, Höskuld Björnsson, Ástu Guðrúnu Eyvindardóttur, Halldór Einarsson, Sigurjón Ólafsson og fleiri auk myndvefnaðar Hildar Hákonardóttur af 25 sunnlenskum konum.

Mörg verkanna hafa sterkar rætur í nærsamfélaginu og nokkur þeirra hafa verið gefin safninu á síðusu árum og hafa ekki verið þar áður til sýnis.