„Viltu finna milljón?“ fær góðar viðtökur

Ljósmynd/Leikfélag Hveragerðis

Leikfélag Hveragerðis frumsýndi gamanleikritið Viltu finna milljón? laugardaginn 11. október síðastliðinn við góðar viðtökur áhorfenda. Sýningin gekk eins og í sögu og stóðu allir leikarar sig vel.

Sýningin segir frá hjónunum Haraldi og Ingibjörgu. Haraldur hefur unnið hjá skattinum á ömurlegum launum í áraraðir. En einn daginn finnur hann fulla tösku af peningum. Hann er vanur maður sem sér að féð er illa fengið en hann ákveður að þetta sé hans tækifæri til betra lífs og fer beint í að panta flug aðra leiðina út í heim. En málið er vitaskuld ekki svo einfalt og heilmiklar flækjur, lygar og taugaveiklun fylgja í kjölfarið.

Leikarar á sviði eru átta talsins. Hjónin leika þau Ingberg Örn Magnússon og Maria Araceli. Aðrir leikarar eru Hrafnhildur Faulk, Sindri Mjölnir Magnússon, Gunnlaugur Ragnarsson, Elías Óskarsson, Valdimar Ingi Guðmundsson og Bernhard Jóhannesson.

Sýningar verða út október og fram í nóvember og fer miðasala fram á tix.is. Fólk er hvatt til þess að gera sér ferð í leikhúsið í Hveragerði og eiga kvöldstund uppfulla af gleði, misskilningi og hlátrasköllum.

Fyrri greinHef verið handknattleiksmaður Hveragerðis í áratugi
Næsta greinMeintur brennuvargur úrskurðaður í gæsluvarðhald