Viðtökurnar fram úr björtustu vonum

Dag­ur Snær Elís­son og Stein­grím­ur M. Stein­gríms­son. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingarnir og stórvinirnir Stein­grím­ur M. Stein­gríms­son og Dag­ur Snær Elís­son stofnuðu ný­verið vef­inn Mín hönn­un. Vef­ur­inn er hugsaður fyrir listamenn sem vilja koma hönnun sinni á framfæri og selja.

„Hugmyndin kviknaði þannig að við vorum að sjá einstaklinga vera skapa alveg frábæra og einstaka hluti og auglýsa sig á Instagram. Við vorum sammála um að það getur verið erfitt að koma sér á framfæri á einum samfélagsmiðli og með takmarkaðan fylgjendahóp,“ segir Steingrímur í samtali við sunnlenska.is.

Vilja gera listamenn sýnilegri
„Okkur langaði mikið til að skapa vettvang þar sem list og hönnun er komin saman á síðu sem bæði auðveldar listamanninum eða hönnuðinum að hafa vörurnar sínar aðgengilegar, og eins auðvelda áhugasömum einstaklingum um list og hönnun að versla af listamanninum.“

„Markmið okkar er að fá til liðs við okkur sem flesta listamenn og hönnuði og bjóða upp á frábært úrval af fallegri list og hönnun. Með þessu viljum við einnig gera þá frábæru listamenn sem eru hér á landi sýnilegri og aðgengilegri,“ segir Dagur.

Fjölgar stöðugt nýjum listamönnum á skrá
Steingrímur segir að þeir félagarnir hafi farið að vinna í uppsetningu á síðunni um leið og þeir fengu hugmyndina.

„Ferlið gekk nokkuð smurt fyrir sig en við lögðum inn nokkra klukkutíma á dag í um mánuð þar til síðan varð klár. Það er margt sem þarf að huga að við uppsetningu á svona sölusíðu, meðal annars hanna útlit síðunnar, fá inn fyrstu listamennina, setja upp skilmála, tengjast greiðslukerfi, setja upp samning og margt fleira.“

„Við opnuðum vefinn 8. febrúar og hafa viðtökurnar farið fram úr okkar björtustu vonum. Við erum með um fimmtán listamenn á skrá eins og staðan er í dag en það bætast við listamenn hjá okkur á skrá vikulega og erum við að vinna í að setja upp tvo nýja um þessar mundir,“ segir Dagur.

Mikið úrval af allskonar list
„Við erum með fallegt og gott úrval af vörum á síðunni okkar. Þar má meðal annars nefna mikinn fjölda málverka, Resin art vörur, kerti, skart, stafræna hönnun og teiknaðar myndir. Við skiptum flokkum á síðunni upp eftir mörkuðum. Við erum með í dag listmarkað sem inniheldur málverk, teikningar og stafræna list og einnig erum við með hönnunarmarkað sem inniheldur resin art vörur, skart, kerti og fleira.“

Dagur segir möguleikana vera endalausa. „Við höfum mikinn áhuga að fá inn fjölbreytt úrval á síðuna okkar og má meðal annars nefna, fatahönnuði sem myndu fara undir flokkinn fatahönnun, tónlistarfólk á tónlistarmarkað með vínylplötur eftir sig og þess háttar, svo eitthvað sé nefnt.“

Listamaðurinn geti einbeitt sér að því að skapa
Mín hönnun er fyrir alla þá sem eru að skapa list eða hönnun og langar að koma vörunum sínum á framfæri. „Þú getur verið að mála, teikna, skapa keramik vörur, skart, fatahönnun og svo margt margt fleira. Það eru í raun engin mörk þegar kemur að list og hönnun, við tökum öllum opnum örmum sem hafa áhuga að auglýsa hjá okkur.“

„Það getur oft verið erfitt og þreytandi að koma vörunum sínum á framfæri og halda uppi verslun eða sölusíðu. Með þessum hætti langaði okkur að aðstoða listamanninn með allt sem viðkemur viðskiptahliðinni í list svo að einstaklingurinn geti einbeitt sér að því að skapa og því sem honum þykir skemmtilegast að gera,“ segir Steingrímur.

Vöruhús á framtíðarplaninu
„Við erum að fá mjög góða umferð inn á síðuna og salan í mars hefur gengið mjög vel að okkar mati. Það er greinilegt að fólk hefur mikinn áhuga á íslenskri list og hönnun.“

„Framtíðarmarkmiðið er að halda áfram að stækka vettvanginn okkar og bjóða velkomna listamenn og hönnuði á skrá hjá okkur. Einnig væri gaman að geta boðið upp á pop-up listasýningar og sett upp vöruhúsnæði svo við getum afgreitt vörurnar frá A-Ö. Við höfum einnig skoðað það að herja á erlendan markað og kynna íslenska list út fyrir landsteinana.“

„Við viljum hvetja fólk til að skoða þetta einstaka vöruúrval sem við höfum á síðunni okkar og hvetjum fólk í að styðja við íslenska list og hönnun. Ef þú hefur áhuga að koma á skrá hjá okkur ekki hika við að hafa samband!“ segir Dagur að lokum.

Minhonnun.is

Fyrri greinSuðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss
Næsta greinFrískir Flóamenn og Björgunarfélag Árborgar áfram með í Laugavegshlaupinu