„Við getum ekkert hagað okkur“

Svalir! Stuðlabandið í æfingahúsnæðinu við Eyraveg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það lætur lítið yfir sér, iðnaðarhúsnæðið við Eyraveg 49 inni á athafnasvæði Set á Selfossi, sem eitt sinn hýsti rafmagnsverkstæði Sigga Gíslasonar. Þar er þó ennþá rafmögnuð stemning. Blaðamanni sunnlenska.is hefur verið boðið á æfingu Stuðlabandsins, sem nú æfir stíft fyrir jólatónleikana Jólahjól. Þeir verða haldnir á Sviðinu í Miðbæ Selfoss 25. nóvember og 2. desember næstkomandi.

Ég ber að dyrum. „Augnablik, augnablik, augnablik,” heyrist fyrir innan dyrnar. Er það Skrámur sjálfur? Nei, það er slagverkleikarinn geðþekki, Bjarni Rúnarsson sem kemur til dyranna. „Ég var pantaður hingað,“ segi ég og Bjarni býður mig velkominn í bæinn.

Það er heimilisleg stemning í æfingahúsnæðinu. Birgir hljómborðsleikari vaskar upp kaffibolla og býður mér til sætis í setustofu hljómsveitarinnar. Hann er nýjasti liðsmaður hljómsveitarinnar, reyndar búinn að vera um borð í eitt og hálft ár en það var ekki alltaf mikið um spilamennsku á kóvid-tímum, þó að bandið sé komið á fullt í dag.

Lofað gulli og grænum skógum

Baldur bassaleikari byrjaði litlu fyrr, í mars 2020, í sömu viku og kórónuveirufaraldurinn hófst á Íslandi. „Það var búið að lofa mér gulli og grænum skógum en svo spilaði ég ekki fyrsta giggið fyrr en hálfu ári seinna,“ segir Baldur. Örlar á eftirsjá í málrómnum? „Nei, í staðinn vorum við hrikalega vel æfðir, það var æft þrisvar í viku í faraldrinum.“

Og það sýndi sig líka á fyrsta Jólahjóli Stuðlabandsins sem streymt var frá Selfossflugvelli að kvöldi annars dags jóla 2020. Þar sáu margir Baldur í fyrsta skipti – og bandið þaulæft og þétt.

„Við náðum nokkrum giggum í tveimur gluggum í faraldrinum en svo greip um sig smá andleysi í nóvember í fyrra þegar öllu var skellt í lás aftur. Við fórum í smá fýlu,“ viðurkennir Magnús Kjartan söngvari sveitarinnar, „og sendum bara upptöku af tónleikunum 2020 í loftið aftur.“

Skyldi það vera jólahjól? Magnús Kjartan þenur raddböndin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eins og Bingó-Lottó

En nú eru takmarkanir og grímuskylda á bak og burt og bandið blæs enn á ný í jólalúðra. Jólahjólinu verður snúið á nýjan leik á Sviðinu næstu tvo föstudaga.

„Þetta verður gott jólapartí, sannkölluð gleðistund og alls ekki hátíðleg. Hugmyndin er í eðli sínu sú að vera samkvæmir því sem við erum. Við getum ekki verið með einhverja stífa jólatónleika – við getum ekkert hagað okkur,“ segir Marinó trommuleikari léttur og Magnús grípur fram í fyrir honum; „já, þetta verður alvöru gleði og flest lögin jólalög en kannski ekki öll.“

Fannar gítarleikari hefur verið þögull fram að þessu, enda eiga heimsmálin hug hans allan þessa dagana og í mörg horn að líta þar. „Það er eitt, Guðmundur,“ segir hann og þögn slær á hópinn. „Einhverjir myndu halda að Jólahjól sé bein tilvísun í lag Sniglabandsins en það er alrangt. Við erum að tala um jólahjólið okkar – okkar eigið jólalukkuhjól, sem verður á sviðinu og Matti rótari mun snúa villt og galið allt kvöldið. Það mun í rauninni stýra því hvernig kvöldið þróast.“

„Þetta verður æsispennandi,“ segir Stefán kassagítarleikari, „eins og Bingó-Lottóið var hérna um árið. Það veit enginn hvernig þetta kvöld mun enda. Það eru ýmsir valmöguleikar á hjólinu. Hjólið gæti ráðið næsta lagi, hvort við fáum gjörning eða búktal, eða jafnvel frítt á barinn fyrir gesti – sögustund jafnvel. Áhorfendur gætu þurft að spreyta sig eða þá að óvæntir gestir stígi á stokk.“

Leynigestir jafnvel? „Við getum ekki tjáð okkur um það en það er að ljóst að áhorfendur munu fá mikið fyrir peninginn,“ segir Magnús Kjartan.

Félagsfræðitilraun á föstudagskvöldi

Fannar vill ekki lofa upp í ermina á sér en fullyrðir þó að tónleikarnir tveir verði ekki eins. „Við ætlum að reyna að nýta tæknina þannig að fólk geti líka notað símana sína til þess að ráða framvindu tónleikanna og jafnvel kosið hvaða lag það vill heyra næst – eða hvaða lag það vill alls ekki heyra. Þetta verður eins og raunveruleikaþáttur…“

„Þetta verður nokkurs konar félagsfræðitilraun,“ skýtur Birgir inní. „Tvö ólík kvöld og þess vegna auðvitað æskilegast að fólk mæti á bæði kvöldin. Salnum verður stillt öðruvísi upp, setið við borð og takmarkaður miðafjöldi í boði.“

Mun Matti rokka í kringum jólatréð?
Nú er kaffið að klárast og svona rétt í lokin spyr ég hvort drengirnir séu mikil jólabörn. Baldur er vandræðalega fljótur að svara: „Ég elska jólin! Og jólalögin! Stúfur með Baggalúti er í mestu uppáhaldi hjá mér núna, vonandi kemst það á prógrammið á tónleikunum… og Snjókorn falla, það hefur alltaf verið í miklu uppáhaldi hjá mér…,“ segir bassaleikarinn spenntur. „Ég væri líka til í að sjá Matta rótara taka Rokkað í kringum jólatréð,“ segir Marinó.

„En svona í lokin,“ segir Stefán einlægur, „ástæðan fyrir því að við erum að gera þetta… Við erum auðvitað ballhljómsveit og fólk er vant því að sjá okkur þar. En okkur langaði virkilega að halda svona jólakvöld í heimabyggð, á nýjum flottum stað og búa til stemningu þar sem við getum verið við sjálfir og sýnt að við erum ágætis band.“

„Ágætis band,“ góð lokaorð og vissulega hógvær, komandi frá bestu ballhljómsveit landsins þessi misserin. Við smellum af nokkrum myndum á meðan bandið telur í Jólahjól Sniglabandsins og síðan laumast ég út í nóvemberrigninguna. Er ekki kominn tími á að nokkur snjókorn falli?

Fyrri grein„Vissu ekki að fiskur gæti verið svona góður“
Næsta greinVandræðalega spennt ef það er baðkar á hótelherberginu