„Við erum alltaf að búa til einhverja töfra“

Lúðrasveitin á æfingu. Ljósmynd/Ágústa Ragnarsdóttir

Föstudaginn 3. nóvember mun Lúðrasveit Þorlákshafnar halda fjölskylduskemmtun í Hlíðardalsskóla, Ölfusi. Þar mun sveitin leika þekkta kvikmyndatónlist úr ólíkum áttum og frá mismunandi tímabilum. Undir spilamennskunni munu rúlla myndskeið úr viðkomandi kvikmyndum á stórum skjá.

„Hugmyndin er búin að blunda í okkur lengi. Við vorum með þetta á dagskrá í tví- eða þrígang en svo var alltaf einhver heimsfaraldur að trufla okkur. Svo tók Jónasarverkefnið okkar við, þar sem við fögnuðum tíu ára útgáfu plötunnar Þar sem himinn ber við haf og nú loks getum við sett þetta aftur á dagskrá. Fall er fararheill, er það ekki? Palli saxófónleikari er búinn að klippa saman fyrir okkur alla kvikmyndabútana sem við notum á tónleikunum og það kemur ótrúlega vel út,“ segir Anna Margrét Káradóttir, ritari Lúðrasveitar Þorlákshafnar, í samtali við sunnlenska.is.

Anna Margrét Káradóttir. Ljósmynd/Aðsend

Stífar æfingar með fullan maga
Anna Margrét segir að þetta sé mögulega stysta æfingaferlið þeirra til þessa en þau byrjuðu að æfa í byrjun september og hafa æft stíft síðan, öll fimmtudagskvöld.

„Við tókum svo æfingadag síðasta laugardag, þar sem við æfðum frá tíu um morguninn og héldum Pálínuboð í hádeginu, þar sem öll komu með eitthvað á matarborðið, og herre gud, það er eiginlega stórhættulegt þegar við gerum þetta, hvílíka veislan! Og svo var æft fram eftir degi á stútfullan maga,“ segir Anna Margrét.

Fagna 40 ára afmæli á næsta ári
Lúðrasveit Þorlákshafnar er ekki þekkt fyrir að slá slöku við en strax eftir þetta verkefni mun sveitin byrja að æfa fyrir afmælistónleika sína. „Sveitin verður 40 ára í febrúar á næsta ári og það verður sko tónlistarveisla þá og mikill gestagangur tónlistarfólks.“

„Við erum rúmlega fjörutíu í sveitinni núna og það er þétt setið. Það er alveg ótrúlega magnað í svona litlu þorpi. Fólk er að koma keyrandi að á æfingar úr Reykjavík og af Suðurlandinu,“ segir Anna Margrét.

Lúðrasveit Þorlákshafnar á æfingu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Heilu fjölskyldurnar í sveitinni
Anna Margrét, sem spilar á klarinett, er búin að vera meðlimur í Lúðrasveit Þorlákshafnar síðan hún var unglingur og fer fögrum orðum um sveitina sína.

„Ég mæli svo innilega mikið með því að vera í lúðrasveit. Félagsskapurinn er ekkert eðlilega skemmtilegur, verkefnin okkar eru svo fjölbreytt og skemmtileg, við erum alltaf að búa til einhverja töfra og þetta heldur manni í æfingu eftir að tónlistarnámi lýkur.“

„Ég er búin að vera í sveitinni síðan ég var unglingur, með hléum. Ég flutti erlendis og þegar ég flutti aftur heim byrjaði síminn strax að hringja og ég var spurð hvort ég ætli að koma á æfingu? Það er nefnilega svo fallegt, við höldum í fólkið okkar og pikkum reglulega í gamla félaga og svo erum við alltaf að taka á móti nýjum félögum líka. Í sveitinni eru heilu fjölskyldurnar líka, mjög fallegt.“

Lúðrasveit Þorlákshafnar á æfingu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eðlilegt skref að fara í lúðrasveitina
Þorlákshöfn er þekkt fyrir gróskumikið menningar- og tónlistarlíf og á Lúðrasveit Þorlákshafnar þar stóran þátt. „Tónlistarlífið í Þorlákshöfn er virkilega gott. Mörg hefðu haldið að gelgjan sem ég var þegar ég var unglingur hefði aldrei byrjað í lúðrasveit en við vorum svo mörg í tónlistarnámi að það var bara eðlilegt næsta skref.“

„Ég lét alveg hafa fyrir mér gelgjunni, mætti í skærlitum buffaló skóm þegar ég var sérstaklega beðin um að mæta í svörtum skóm á gigg. Ég verð eiginlega að biðja Róbert Darling, þáverandi stjórnanda, formlega afsökunar og um leið hrósa honum fyrir þolinmæðina sem hann hafði fyrir mér,“ segir Anna Margrét hlæjandi.

„Komið á tónleika! Það er alltaf gaman á tónleikum með Lúðrasveit Þorlákshafnar og öll munu finna eitthvað við sitt hæfi, efnisskráin er það fjölbreytt,“ segir Anna Margrét að lokum.

Hægt er að nálgast miða á tónleikana hér.

Róbert Darling stjórnaði sveitinni um árabil en leikur nú á baritónhorn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinMenningarmiðstöð Hornafjarðar hlýtur Menningarverðlaun Suðurlands
Næsta grein„Ég á mjög skilningsríka eiginkonu“