Viðamikil útisýning á Fossflöt

"Listamannabærinn Hveragerði" er viðamikil útisýning sem sett verður upp í Listigarðinum Fossflöt á næstu dögum af Listvinafélagi Hveragerðis

Gert er ráð fyrir að sýningin opni formlega á Blómstrandi dögum, föstudaginn 12. ágúst kl. 16.

Listamannabærinn Hveragerði er sýning sem hönnuð er af Guðrúnu Tryggvadóttur myndlistarmanni og fyrrv. formanni Listvinafélagsins í Hveragerði. Listvinafélagið hefur þegar sett upp farandsýningu þar sem sex rithöfundum sem settust að í Hveragerði í árdaga byggðar voru gerð skil. Þeir voru: Kristján frá Djúpalæk, Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Valdís Halldórsdóttir, Gunnar Benediktsson og séra Helgi Sveinsson.

Á hinni nýju sýningu eru fleiri listamenn teknir fyrir þ.e. tónsmiðurinn Ingunn Bjarnadóttir og myndlistarmennirnir Kristinn Pétursson og Höskuldur Björnsson. Auk þess sem lifandi gallerí mun fjalla um eldri og yngri listamenn allra listgreina en sá hluti verður settur upp sumarið 2017.

Sýningin felst í níu glerflekum þar sem verkum listamannanna og lífshlaupi verður gerð skil á myndrænan og skemmtilegan hátt. Hugmyndin að sýningunni hefur verið kynnt m.a. í Listasafni Árnesinga á síðasta ári.

Hveragerðisbær ákvað í tilefni af 70 ára afmæli bæjarins að styrkja Listvinafélag Hveragerðis um 3 milljónir króna til gerðar sýningarinnar en unnið hefur verið að henni um nokkurn tíma.

Hægt er að kynna sér félagið nánar á áhugaverðri heimasíðu þess.

Fyrri greinÁrborg safnar fyrir skammtímavistunina
Næsta greinÁrborg lagði Mídas – Stokkseyri fékk skell