Vetrarsólstöðudagskrá í Listasafni Árnesinga

Sunnudaginn 21. desember verður vetrarsólstöðudagskrá á Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Boðið verður upp á listamannaspjall kl. 14 og vetrarsólstöðu-danspartý kl. 15:03.

Piotr Zbierski er pólskur ljósmyndari sem hefur vakið alþjóðlega athygli. Einkasýning hans Solid Maze er ein af haustsýningum LÁ og stendur nú í sal 4. Á sunnudaginn kl. 14 verður listamannaspjall þar sem gestum gefst tækifæri til að hlusta á þennan áhugaverða ljósmyndara segja frá myndunum á sýningunni en hann mun eiga samtal við Erin Honeycutt, listfræðing, sem hefur skrifað fallega texta um sýningu Piotr. Spjallið fer fram á ensku.

Vetrarsólstöður eru kl. 15:03 og þá verður boðið upp á danspartý. Þegar dagsbirtan er lítil hjálpar hreyfing, tónlist og gleði til að lyfta okkur upp. Gestir geta dansað burt skammdegið á stysta degi ársins og notið þess að kveðja veturinn með hressandi tónlist frá DJ SKE. Dansviðburðurinn er opinn öllum… börnum, foreldrum, ömmum, öfum og vinum. Símar og upptökur verða bannaðar í dansrýminu. „Verum saman í núinu og gleymum amstri dagsins um stund.“

Jólakortaföndur er í boði á opnunartíma safnsins, alla daga fram að jólum. Ratleikurinn „Leiðangurinn til Mars“ er einnig á sínum stað í Krakkakrók. Síðasti sýningardagur haustsýninga er 23. desember.

Fyrri greinGuðný Ósk dúxaði í FSu