Hið árlega Kótelettukvöld Flóamannabókar breytir nú um svip og aðsetur. Vegna endurbóta á Þingborg er skemmtunin færð og verður nú haldið skemmtikvöld í Félagslundi laugardaginn 25. október.
Húsið opnar kl. 19:30 en dagskráin hefst kl. 20. Hinn landsþekkti leikari og skemmtikraftur Hallgrímur Ólafsson (Halli Melló) mun leiða gesti í gegnum kvöldið, halda uppi stemmingu, stjórna happdrætti og fjöri. Á boðstólum verður ostaveisla frá MS, sultur frá GOOD Good, auk þess sem veigar verða seldar á staðnum.
Eins og áður rennur allur ágóði kvöldsins til útgáfu Flóamannabókar en annar hluti þess mikla verks mun fjalla um Villingaholtshrepp hinn forna og kemur út á næsta ári. Miðaverði er stillt í hóf, aðeins 4.900 kr.
Ritnefnd Flóamannabókar vonast til þess að sem flestir Flóamenn nær og fjær mæti til að njóta kvöldsins í góðum félagsskap og styrkja jafnframt menningu og sögu Flóans.

