Vertu svona kona í leikhúsinu á Selfossi

Leikfélag Selfoss æfir nú af fullum krafti leikritið “Vertu svona kona” í leikstjórn Guðfinnu Gunnarsdóttur. Í verkinu er viðfangsefnið konan í sögunni og sagan í konunni.

Leikritið er sameiginleg sköpun hópsins og leikstjórans þar sem inn í fléttast textar eftir Margaret Atwood. Öll tónlist og hljóðmynd er í höndum Kristjönu Stefánsdóttur. Stefnt er að frumsýningu 3. nóvember og sýningar verða átta talsins.

Alls taka tólf leikarar þátt í sýningunni ásamt frábæru tækniteymi. Fyrir um það bil þremur vikum síðan kom hópurinn saman, deildi reynslusögum, lygasögum, ástarsögum og gamansögum. Það hefur svo verið í höndum Guðfinnu leikstjóra og Jónheiðar aðstoðarleikstjóra að smella saman handriti. Sýningin er því einlæg, persónuleg, falleg, ljót, fyndin og skemmtileg. Áhorfendur eiga eftir að flakka allan tilfinningaskalann og hafa gaman af.

Áhugasamir eru hvattir til þess að fylgjast með á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #vertusvonakona og einnig á Snapchat reikningi leikfélagsins, leik-selfoss.

Fyrri greinBikardraumar Þórsara úr sögunni
Næsta grein„Á í ástar/ haturssambandi við þáttinn“