Verk Elínar á bók og diski

Elín Gunnlaugsdóttir, tónskáld á Selfossi, sendir á morgun frá sér bók og geisladisk með verkinu Leikur sem frumflutt var í Melbourne í Ástralíu í október síðastliðnum.

Samhliða verður opnuð, laugardaginn 14. maí kl. 14:30, sýning á verkinu í Bókasafni Árborgar á Selfossi þar sem þau Hallfríður Ólafsdóttir flautuleikari og Ármann Helgason klarínettuleikari munu flytja verkið og Elín Gunnlaugsdóttir segja frá tilurð þess.

Verkið Leikur var skrifað á póstkort sem Elín sendi frá París til Hallfríðar og Ármanns á Íslandi á árunum 2009 og 2010. Þau frumfluttu verkið síðan í University of Melbourne sl. haust og frumflutningur á Íslandi fór fram á Kjarvalsstöðum á Myrkum músíkdögum í janúar sl. Flutningur verksins á Selfossi er fjórða skiptið sem það er flutt opinberlega.

Verkið Leikur varð til í Cité Internationale des Arts í Paris og er nafnið dregið af þrennu. Höfundur leikur sér hér að endurteknu stefjaefni og síðan var við ritun verksins brugðið á leik og fyrir leik þess og æfingar sent með franskri og íslenskri póstþjónustu í Garðabæ.

Um höfund og flytjendur:
Elín Gunnlaugsdóttir (f.1965) lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987. Útskrifaðist frá sama skóla úr tónfræðadeild árið 1993 þar sem kennarar hennar í tónsmíðum voru Þorkell Sigurbjörnsson, Hróðmar Ingi Sigurbjörnsson og Guðmundur Hafsteinsson. Árið 1998 lauk hún framhaldsnámi frá Konunglega tónlistarháskólanum í Den Haag, en þar voru kennarar hennar í tónsmíðum þeir Theo Loevendie og Diderik H. Wagenaar. Frá því að Elín lauk námi hefur hún búið á Selfossi og starfað þar við tónsmíðar, söng og kennslu. Verk hennar hafa verið flutt hér heima, í Evrópu, Bandaríkjunum og Ástralíu. Elín hefur hlotið fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín að tónsmíðum en skráð verk eftir hana eru um 40 talsins. Hún er á sumri komandi staðartónskáld í Skálholti.

Hallfríður Ólafsdóttir er 1. flautuleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Hún kennir einnig við Tónlistarskólann í Reykjavík og er flautuleikari kammerhópsins Camerarctica. Árið 2002 var Hallfríði veitt heiðursnafnbótin Honorary Associate of the Royal Academy of Music sem veitist þeim fyrrum nemendum RAM sem notið hafa velgengni í starfi. Hallfríður er einnig höfundur metsölubókanna um músíkölsku músina Maxímús Músíkús.

Ármann Helgason, klarínettuleikari, á að baki fjölbreyttan feril sem einleikari, kammermúsíkant og hljómsveitarspilari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, kammerhópnum Camerarctica og ýmsum öðrum hópum, m.a. Caput, Hnúkaþey og færeyska kammerhópnum Aldubáran. Ármann var valinn bæjarlistamaður Garðabæjar árið 1997, hlaut TónVakaverðlaun Ríkisútvarpsins árið 1995 og hefur hlotið starfslaun úr Listasjóði til þess að vinna að ýmsum verkefnum.