Vegna óviðráðanlegra aðstæðna er sýningu Hringleiks aflýst. „Þetta er okkur þungbært og að okkur langar mikið til að sýna á þessu svæði og erum öll af vilja gerð að koma því við,“ segir Karna Sigurðardóttir, hjá Hringleik.
—–
Mánudaginn 21. júní mun sirkuslistahópurinn Hringleikur mæta á Eyrarbakka með sýninguna sína Allra veðra von.
„Hringleikur er sirkuslistafélag sem hefur það markmið að byggja upp fjölbreytta sirkusmenningu á Íslandi. Við erum fjölbreyttur hópur af fólki með allskonar bakgrunn, en höfum það öll sameiginlegt að stunda sirkuslistir og störfum mörg hver sem sirkuslistafólk í fullu starfi,“ segir Eyrún Ævarsdóttir, sirkuslistakona, í samtali við sunnlenska.is.
Mörg listform blandast saman í eitt
„Við viljum kynna það sem kallast nýsirkus, á ensku contemporary circus, fyrir Íslendingum, en þar eru sirkusgreinar eins og loftfimleikar, akróbatík, djöggl eða jafnvægislistir notaðar á listrænan hátt í bland við leiklist, dans, tónlist og fleira til að skapa sýningar, heima og sögur sem geta fjallað um hvað sem er.“
„Hringleikur var stofnaður vorið 2018, og hefur síðan staðið fyrir og tekið þátt í fjölbreyttum verkefnum, bæði sjálfstæðum sýningum, námskeiðum og á ýmsum lista- og menningarhátíðum hér heima og erlendis,“ segir Eyrún.
Hlutu Grímuna 2021
„Meðlimir Hringleiks hafa flestir stundað og sýnt sirkuslistir um árabil, meðal annars með Sirkus Íslands. Hringleikur fæddist af þeirri löngun til að troða nýjar slóðir með sirkuslistir á Íslandi, og Allra veðra von er fyrsta fullunna verkið sem kemur úr smiðju Hringleiks,“ segir Eyrún.
Þess má geta að meðlimir Hringleiks eru yfir tuttugu talsins. Á ferðalagi um landið í sumar verða þau sex saman sem sjá um að setja upp sýninguna. Eyrarbakki er ekki eini staðurinn sem þau stoppa á á Suðurlandi – þau verða einnig á Höfn í Hornafirði 6. ágúst.
Eyrún segir að viðbrögðin við Allra veðra von hafi verið framar vonum. „Áhorfendur á öllum aldri hafa notið sýningarinnar, auk þess að hún hlaut Grímuverðlaunin fyrir dans- og sviðshreyfingar ársins nú á dögunum.“
Sýning sem gerir fólk agndofa
„Sirkuslistir geta vissulega verið hættulegar, en við reynum að halda raunverulegri áhættu í lágmarki með því að passa upp á allt öryggi og æfa okkur vel, og hafa skýr samskipti innan hópsins bæði á sýningum og æfingum, þannig að allt fari eins og það á að gera þegar fólk flýgur um loftið.“
„Allra veðra von er fyrir alla, sirkusformið er svo aðgengilegt og heillandi að það dregur alla með sér. Þegar við sýndum í Tjarnarbíói í vor var gaman að finna hvað sýningin náði til fjölbreytts hóps. Fjögurra og fimm ára börn voru í skýjunum, grunnskólabörn og ungmenni, foreldrar og fullorðnir af öllum stærðum og gerðum komu agndofa af sýningunni. Aðalmálið er að klæða sig eftir veðri nú þegar við erum undir berum himni!“ segir Eyrún að lokum.
Hægt er að nálgast miða á sýninguna tix.is.