Þriðjudaginn 25. nóvember fór fram hlýlegt og vel sótt útgáfuhóf Ljóðakistunnar á Plöntunni Bistró í Norræna húsinu. Fjölskyldur og vinir höfundanna komu saman til að fagna útgáfunni, sem miðar að því að efla tengsl, samveru og skapandi leik í gegnum ljóð og tónlist.

Að verkinu standa þrjár sunnlenskar konur, þær Halldóra Guðlaug Þorvaldsdóttir, Júlía Sif Liljudóttir og Sædís Harpa Stefánsdóttir. Sædís Harpa er jafnframt myndhöfundur verksins.
Ljóðakistan er fyrsta vara vörumerkisins Ljóð og Lag og er safn tuttugu fallegra, handteiknaðra spjalda með íslenskum vísum. Á framhliðunum eru hlýlegar myndir af fuglinum Ljóð og hagamúsinni Lag, sem leiða börnin í gegnum efnið á leikandi hátt. Á bakhliðunum eru klassískar íslenskar vísur sem hvetja til söngs, lesturs og samveru milli kynslóða.

Á útgáfuhófinu deildu höfundar sköpunarferlinu og og draumi sínum um að Ljóð og Lag verði „traustir félagar barna í sköpun, lærdómi og í lífinu sjálfu“. Framtíðarsýn þeirra er að list, orð og leikur verði lykillinn að því sem gerir okkur mannleg, að kistan verði farvegur að því að varðveita tunguna, menninguna og mannleg tengsl.
Ljóðakistan fæst á meðal annars á ljodoglag.is, verslunum Eymundsson og á bokabeitan.is.
Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá útgáfuhófinu.


