Vel heppnað Þollóween – sjáðu myndirnar

Hér er Þóllóween nefndin i fullum skrúða á Nornaþingi en þess má geta að allar gefa sína vinnu í að skipuleggja og framkvæma hátíðina sem er fjármögnuð með stuðningi Sveitarfélagsins Ölfuss og styrkjum frá velunnurum Þollóween. Ljósmynd/Aðsend

Skammdegishátíðinni Þollóween í Þorlákshöfn lauk á laugardagskvöldið þegar rúmlega 100 nornir söfnuðust saman á Nornaþingi í Ráðhúsinu. Þar var mikið um dýrðir og skemmtu sér allar konunglega með kústa sína, hatta og aðra nauðsynja fylgihluti.

Það sama má segja um alla bæjarbúa í Þorlákshöfn sem flykktust á þá sextán viðburði sem haldnir voru í nýliðinni viku, þar sem allir gátu fundið eitthvað spennandi og hræðilegt. Flóttaherbergið í húsnæði Björgunarsveitarinnar Mannbjargar sem upphaflega átti að vera opið í tíu klukkustundi þrefaldaði opnunartímann sinn því svo mikil var ásóknin. Þá komu hátt í 200 manns í fullorðins draugahús á Oddabraut 14 þar sem heimili Erlu í Þollóween nefndinni var algjörlega undirlagt og fimmtán leikarar að störfum. Börnin voru líka með spennustigið í hámarki alla vikuna og fjölmenntu á alla þá viðburði sem ætlaðir voru þeim, eins og ónotalegu sundstundina, skelfilegu skrautsmiðjuna, draugahús á vegum 10. bekkjar, bílabíó, grikk eða gott og margt, margt fleira.

Þetta var í fjórða sinn sem Þollóween var haldin og greinilegt að hátíðin er komin til að vera. Rúsínan í pylsuendanum var svo hvalurinn sem rak í fjöruna og ætla mátti að hefði verið hluti af dagskránni og vilja nefndarkonur meina að hann hafi einmitt verið það og sé afrakstur kyngimagnaðra sambanda sem þær hafa í aðrar víddir. Tengslanetin skipta jú öllu máli þegar kemur að vel heppnuðum hátíðarhöldum!

Meðfylgjandi eru myndir frá liðinni viku.

Fjórir leikarar af 15 sem voru í fullorðins draugahúsinu. Ljósmynd/Aðsend
Krakkarnir lifa sig mjög mikið inn í sína karaktera og hér má sjá Emblu sem elskar Þollóween. Ljósmynd/Aðsend
Skólastjóri Grunnskólans í Þorlákshöfn tók vel á móti krökkum í grikk eða gott ásamt frænku sinni. Ljósmynd/Aðsend
Börnin voru alveg hryllileg mörg hver á búningadegi í skólanum. Þorvarður Ragnar og mamma hans eru þekkt fyrir mikinn metnað í búningagerð. Ljósmynd/Aðsend
Fjölmörg hús voru hræðilega skreytt, hér má sjá hluta skreytinga á húsinu sem var valið best skreytta húsið. Ljósmynd/Aðsend
Líney fékk verðlaun fyrir flottasta búninginn. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÞórsarar fóru örugglega áfram
Næsta greinLögregla með tilmæli vegna sýnatöku á Selfossi