Vel heppnað strengjasveitarmót á Akureyri

Átján strengjanemendur frá Tónlistarskóla Árnesinga sóttu vel heppnað strengjasveitamót á Akureyri um síðustu helgi ásamt um 300 öðrum strengjanemendum víðs vegar að af landinu.

Hópurinn fór í rútu frá Selfossi ásamt þremur nemendum úr Tónlistarskóla Rangæinga og sex fararstjórum, þar á meðal Ulle Hahndorf sellókennara. Það er skemmst frá því að segja að ferðin gekk í alla staði vel og heim snéru nemendur og fararstjórar þreyttir, en alsælir í ferðalok.

Á heimasíðu TÁ segir að gaman hafi verið að fylgjast með hve duglegir og einbeittir nemendur voru allan tímann við æfingar og fararstjórarnir og kennarar voru óendanlega stoltir af sparibúnum nemendum sínum þegar þeir stigu á svið á lokatónleikunum í Hofi á sunnudeginum.

Á mótinu æfðu fjórar sveitir, gul, rauð, græn og blá. Sunnlensku nemendur röðuðust í allar sveitirnar nema gulu. Tveir kennarar Tónlistarskóla Árnesinga stjórnuðu sveitum á mótinu, þau María Weiss og Guðmundur Kristmundsson.

Fyrri greinVaskir skátar á víkinganámskeiði
Næsta greinGuðjón og Kristinn þjálfa Árborg