Veðurskeyti frá Ásgarði í Bókakaffinu

Atli Ingólfsson. Ljósmynd © Kristinn Ingvarsson

Laugardaginn 23. apríl kl. 17:00 mun Atli Ingólfsson, tónskáld og prófessor við LhÍ, kynna í Bókakaffinu á Selfossi bókina Veðurskeyti frá Ásgarði – Ferðahandbók um tónverk.

Bókin hverfist í kringum tónverkið Elsku Borga mín sem er verk fyrir 24 raddir. Textar verksins eru upp úr sendibréfum Lilju Magnúsdóttur til dóttur sinnar Guðborgar Aðalsteinsdóttur, rituð 1948 og ’49.

Verkið myndar einn stóran hljóðflöt þar sem margvíslegar hugleiðingar Lilju birtast og hverfa í alls kyns umhverfi, draumkenndu, áköfu, hikandi, glaðlegu eða ísmeygilegu.

Atli segir í stuttu máli frá verkinu og útskýrir nokkur atriði í byggingu þess. Síðan býður hann gestum að hlusta á upptökuna sem er 25 mínútur. Að því loknu svarar hann spurningum ef einhverjar eru.

Þetta er liður í baráttu Atla Ingólfssonar fyrir því að hljómgæði og innileg hlustun fái aftur þann sess sem þau höfðu áður.

Viðburðurinn er hluti af dagskrá menningarhátíðarinnar Vor í Árborg. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Fyrri greinTelur þrif í sundhöllinni ekki eiga heima á borði bæjarráðs
Næsta greinÁsókn í lóðir við ein verðmætustu gatnamót landsins