Vantar svo mikið að fá fleiri stelpur inn í þennan bransa

Aníta Briem stillti sér upp á mynd með stelpunum og kennurunum á námskeiðinu. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Nú í vikunni hafa sunnlenskar unglingsstúlkur á aldrinum 13-15 ára verið að læra allt um kvikmyndagerð í Menningarverstöðin Hólmaröst á Stokkseyri.

Námskeiðið Stelpur filma, sem er á vegum RIFF, alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Reykjavík, er vikulangt og á því læra stelpurnar handritsgerð, leikstjórn, kvikmyndatöku og klippingu.

Aníta Briem hélt fyrirlestur þar sem hún sagði reynslusögur úr kvikmyndabransanum og gaf góð ráð. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Karllægur heimur
Á þriðjudaginn heimsótti leikkonan Aníta Briem stelpurnar á námskeiðinu og sagði þeim frá sinni reynslu úr kvikmyndabransanum. „Það er dásamlegt að koma og halda fyrirlestur fyrir þessar stelpur. Ég er búin að vera að vinna í umhverfi alls staðar í heiminum þar sem sögur eru mest megins skrifaðar af karlmönnum og leikstýrt af karlmönnum, þannig að þetta framtak hérna sem er að hvetja ungar stelpur til að stíga inn í þessa stöðu er svo ótrúlega mikilvægt,“ segir Aníta í samtali við sunnlenska.is.

„Það gefur mér svo mikla von að leikarar í framtíðinni geti túlkað sögur jafn mikið skrifaðar af konum og karlmönnum og ekki síður fyrir áhorfendur því að sögurnar sem við höfum í kringum okkur – bíómyndirnar, sjónvarpsseríurnar og allt það – hafa svo ótrúlega mikil áhrif á hvernig við sjáum heiminn og gefa ómeðvitað svo ofboðslega mikið af skilaboðum.“

„Þess vegna er svo rosalega mikilvægt fyrir áhorfendur að fá sögur sem eru frá allskonar stöðum og alls konar fólki, af því að ef þú ert manneskja, sem einhvern veginn finnur ekki söguna þína fyrir framan þig, þá er svo auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að maður sé bara einn í heiminum. Að það sé enginn að upplifa það sem maður er að upplifa og þar af leiðandi að það sé eitthvað að manni.“

Stelpurnar voru duglegar að spyrja Anítu spurninga. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í fyrsta skipti á landsbyggðinni
Um fimmtíu stelpur eru á námskeiðinu og segir Elín Arnar, ein af skipuleggjendum námskeiðsins, að fjöldinn hafi ekki komið henni á óvart. „Þetta árið erum við í fyrsta skipti á landsbyggðinni en námskeiðið er búið að vera í boði í Reykjavík í nokkur ár. Við vildum leyfa stúlkum annars staðar á landinu að njóta líka og sóttum því um styrk til þess. Þannig að við erum núna búin að vera í Keflavík, Borgarnesi, á Egilsstöðum og núna hér,“ segir Elín.

Aðspurð hvernig hugmyndin að námskeiðinu kviknaði segir Elín að þetta sé að fyrirmynd Stelpur rokka. „Sem er námskeið sem er búið að vera í Reykjavík í nokkur ár. Það hallar svo á konur í kvikmyndageiranum og viljum við með námskeiðinu skapa stúlkum og kynsegin andrými til að prófa sig áfram án þess að vera í samkeppni við stráka því það endar yfirleitt með því að stúlkurnar sitji eftir á meðan strákarnir gera og græja.“

Hent út í djúpu laugina
Elín segir að það sé mikilvægt að stelpurnar læri með því að gera hlutina. „Í raun og veru er krökkunum svolítið hent út í djúpu laugina á námskeiðinu. Við byrjuðum á stuttum fyrirlestri um handritsgerð og þær skrifuðu handrit í framhaldinu undir handleiðslu kennara. Þegar handritin voru tilbúin lærðu þau um leikstjórn hjá Ninnu Pálma og síðan þurftu þær að læra á tökuvélarnar og byrjuðu tökur. Að því loknu læra þær klippingu og skila svo tilbúinni mynd í lok vikunnar. Þannig að þær eru bara að læra með því að gera, undir handleiðslu.“

Stelpurnar hlustuðu af mikilli athygli á fyrirlestur Anítu. sunnlenska.is/Jóhanna SH
Fyrri greinMótsagnir í aðdraganda kosninga
Næsta greinBæjarfulltrúar valdi valdinu