Annað árið í röð sigraði Vallaskóli á Selfossi í Skjálftanum, hæfileikakeppni sunnlenskra ungmenna, sem haldinn var í fimmta sinn í íþróttahúsinu í Þorlákshöfn síðastliðinn laugardag.
Ungmenni úr 8.-10. bekk úr sex grunnskólum á Suðurlandi tóku þátt í Skjálftanum í ár og fluttu fjölbreytt og áhrifarík sviðsverk.
Atriði Vallaskóla bar heitið Litríkir skuggar og fjallaði um bakslagið sem dynur á hinsegin samfélaginu. Í 2. sæti varð Grunnskólinn í Hveragerði með atriðið Þori, get og vil sem fjallar um kvenréttindabaráttuna og það ferðalag sem konur hafa farið í til að fá sömu réttindi og karlmenn.
Í 3. sæti varð svo Reykholtsskóli í Bláskógabyggð með verkið Steríótýpur sem fjallar um það að vilja falla inn í hópinn en þurfa þess ekki.
Hægt er að sjá öll atriði Skjálftans 2025 á ruv.is



