Valgeir Guðjónsson varð sjötugur í janúar síðastliðnum og í tilefni af afmælisárinu ákvað hann að helga sig verkefninu Saga Musica. Frumflutningur verksins verður á hátíðartónleikum í Skálholtskirkju kl. 15:00 á þjóðhátíðardaginn, 17. júní.
Saga Musica fjallar um fólk og atburði á landnámstímanum en Valgeir samdi textana á ensku með það í huga að miðla sagnaarfinum og mæta þeim mikla áhuga sem Íslendingasögurnar hafa víða um heim.
Í hrakningum við Hjaltlandseyjar
Í samtali við sunnlenska.is segir Valgeir að þetta verkefni hafi verið honum hugleikið í yfir 30 ár, eða allt frá því að hann sigldi á víkingaskipinu Gaia frá Noregi til Íslands árið 1991 en hann segir það hafa verið magnaða reynslu.
„Í fyrstu var sigling okkar á Gaia frá Bergen í Noregi auðveld og ánægjuleg. Landnámsfólkið lagði hins vegar af stað til landafunda alveg berskjaldað á skipi sem þessu og með óvissuna að vopni,” segir Valgeir. Gaia lagði frá bryggju í Bergen í brakandi blíðviðri en á þriðja degi skall skyndilega á með miklu fárviðri.
„Við þurftum að hafa okkur öll við til að komast í var og tókum þá stefnuna á Hjaltlandseyjar. Þar biðum af okkur veðrið í heila fjóra sólarhringa,” segir Valgeir en fyrsta formlega höfn Gaiu var Kirkwall á Orkneyjum, þá Færeyjar, Vestmanneyjar og loks var siglt inn í Reykjavíkurhöfn þann 17. júní 1991.
„Það var ekki síst þetta mikla óveður sem framkallaði hjá mér sterka samkennd með forfeðrum og formæðrum okkar hér á eyjunni í norðri,” segir Valgeir.
Tónleikaskráin sjálfstætt listaverk
Aðspurður um hátíðartónleikana í Skálholti þann 17. júní segir Valgeir að um sé að ræða frumflutning á verki sem saman stendur af 15 lögum.
„Þetta eru sagnatónleikar, þar sem lögin tengjast í söguþræði með fjórum meginpersónum og eins og í sögum almennt eru þar upphaf, hápunktur og endir. Í tónleikaskránni eru lagatextarnir á ensku og sömuleiðis sögurnar sem binda lögin saman. Sindri Mjölnir, ungur kvikmyndagerðarmaður héðan af Suðurlandi, vann að söguþræðinum en hann hefur jafnframt gert afar listrænar áhrifateikningar sem prýða hverja opnu. Þannig er tónleikaskráin út af fyrir sig sjálfstætt listaverk. Þar sem við beinum fyrst og fremst sjónum okkar að Íslendingum þann 17. júní, hefur Ásta Kristrún kona mín unnið útdrætti á íslensku, sem hún flytur á undan hverju lagi,“ segir Valgeir og bætir við að þegar hann settist að á Eyrarbakka hafi hann verið nær óstöðvandi í laga- og textasmíðum, með skírskotun í manngerðir og atburði landnámstímans og útkoman er yfir 40 lög.
Ný leið til að miðla arfi okkar
Valgeir segir að Íslendingasögurnar, Eddukvæðin og goðafræðin búi yfir miklu aðdráttarafli fyrir hann en sagnatónleikar með 40 lögum sé ekki raunhæfur möguleiki. Hann hafi strax í upphafi viljað mæta þessum mikla áhuga á Íslendingasögunum og víkingatímabilinu og því hafi hann ákveðið að semja textana á ensku til þess að ná að miðla arfleið okkar til breiðari hóps með lögum sínum.
„Saga Musica er alveg ný leið til að miðla arfi okkar, því það gerum við nú með tónlist og sagnaívafi. Eins og flestir vita þá er tónlistin sterkur miðill sem einnig höfðar til stórs hóps,” segir Valgeir.
Miðasala fer fram á tix.is og þar má einnig kaupa tölusett eintök af tónleikaskránni en hún hefur verið prentuð í takmörkuðu upplagi, „svona afmælisupplagi,” segir Valgeir að lokum og hlær við.