Valdimar Thorlacius sýnir í bókasafninu

Í dag kl. 17 opnar Valdimar Thorlacius ljósmyndasýninguna „Einbúar” við sprunguna á Bókasafninu í Hveragerði.

Valdimar er fæddur 1988 og hefur alið allan sinn aldur í Hveragerði. Hann lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Suðurlands og er nú við nám í Ljósmyndaskóla Íslands þar sem hann hefur lokið tveimur önnum af fimm.

Valdimar hefur alltaf haft lúmskan áhuga á ljósmyndun en fór fyrst að eiga við hana af alvöru fyrir u.þ.b. tveimur árum. Sýningin „Einbúar” er lokaverkefni hans á fyrstu önn Ljósmyndaskólans. Einbúum í sveit á Íslandi fer óðum fækkandi og Valdimar langaði til að vekja athygli á þeim áður en þeir hverfa alveg úr samfélaginu.

Þetta er fyrsta einkasýning Valdimars, en áður voru myndirnar á samsýningu nemenda úr Ljósmyndaskólanum. Sýningin verður opin um leið og safnið, virka daga kl. 13-19 og laugardaga kl. 11-14 og stendur til 16. september.

Við opnunina geta gestir spjallað við Valdimar um námið og tilurð myndanna.

Sýningin verður opin alla helgina á Blómstrandi dögum, en einnig verður hinn árlegi bókamarkaður á safninu, sögustund og fleira sem sjá má í dagskránni á vef Hveragerðisbæjar.

Fyrri greinFullorðinsball á gamla Hótel Hveragerði
Næsta greinVallarmetið féll á Kiðjabergi